139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið of sterkt til orða þegar ég notaði orðið þjösnaskapur og mun nú nota rétt orð, þannig að ég tek það aftur. Ég er samt sem áður enn ekki alveg sammála þeirri gagnrýni á það hvernig málið var leitt í gegn á milli 2. og 3. umr. vegna þess að þar kom formaður Dómarafélagsins — þetta mál hafði verið rætt fyrr, þetta var ekki í fyrsta skiptið sem málið var rætt í nefndinni. Og það sem ég sagði líka — því ég virðist vera svolítið ógreinileg í orðum — var að ég vissi ekki að það væri svona mikill ágreiningur. Ég vissi auðvitað að háttvirtir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni voru hlynntir þessum tímabundnu ráðningum, og öðrum aðstoðarmönnum, og ég vissi að verið var að ræða hvor sína leiðina. Mér finnst það eitt, og annað að það sé mikill ágreiningur og nú þurfi að rétta fram sáttarhönd og fara hina leiðina vegna þess að ég held að við stefnum öll að sama marki um að dómstólarnir virki sem best. Ég er tilbúin til að vinna með hv. þingmanni að því að ná fram þessu millidómstigi. Ég tel ekki að það stangist á við þá leið sem við leggjum til að farin sé við fjölgun hæstaréttardómara.