139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég hef alltaf litið svo á að þetta mál sem við greiðum atkvæði um enn einu sinni sé marghliða leiðindamál og að það sé ekki á sérstöku áhugasviði eins eða neins að taka á sig þær byrðar sem felast í þessum samningi. Mér finnst það hins vegar visst fagnaðarefni að við greiðum núna atkvæði um samning sem er miklu betri en þeir samningar sem áður hafa komið til atkvæðagreiðslu um þetta mál.

Ég hef alltaf sagt að ég vilji fara samningaleiðina í þessu máli. Ef ég væri á rauða takkanum hér og nú mundi felast í þeirri afstöðu stefnubreyting, þá væri ég að segja að ég vildi ekki fara samningaleiðina. Ég er því ekki á rauða takkanum. Ég hyggst ekki fyrir mitt leyti leggja stein í götu þessa máls og ætla að láta þá afstöðu mína í ljós með því að sitja hjá.