139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

fundarstjórn.

[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég beini því til forseta að hann beiti sér fyrir því að þingmenn Samfylkingarinnar tali meira saman, þeir hefðu getað leyst þetta mál sín á milli. Ég held að það sé mjög gott að forseti taki það upp á sína arma.

Ég vil einnig ítreka það við hæstv. forseta sem ég sagði hér áðan, undir liðnum um fundarstjórn forseta, að með þeim orðum sem hæstv. fjármálaráðherra viðhafði hér í þessum ræðustól, þar sem hann beinlínis sakaði framkvæmdaraðila, væntanlega í þessu tilfelli Landsvirkjun, um að kaupa sér niðurstöðu — það voru þau orð sem hér féllu — er hann væntanlega að saka Landsvirkjun um að hafa greitt mútufé eða eitthvað slíkt og einhvern um að hafa tekið við því fé.

Ráðherra sem talar með þeim hætti á að sjálfsögðu að biðjast afsökunar í það minnsta. Ég held að forseti ætti nú að ávíta ráðherrann fyrir að tala með þessu móti. Hitt er alveg ljóst að nú virðist þingmönnum og sérstökum stuðningsmönnum umhverfisráðherra vera mikið í mun að reyna að sýna fram á að enginn dómur hafi fallið í Hæstarétti, (Forseti hringir.) að dómurinn hafi ekki sakfellt hæstv. ráðherra, sem er vitanlega út í hött.