139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf í umhverfisnefnd.

[14:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ekki það að ég finni neitt að fundarstjórn þess forseta sem nú situr og starfar en forseti ber líka ábyrgð að hluta til á nefndarstörfum og það eru nefndarstörf sem ég ætla að gera að umræðuefni í tilefni af nýlegum fréttum um hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég vil í tilefni af þeim nefna að ég hef skrifað þingmanninum bréf, hún situr með mér í umhverfisnefnd, og beðið hana afsökunar á harðneskjulegri fundarstjórn í morgun umfram tilefni. Þannig er það bara og ég ætla ekki að nefna mér neitt til afbötunar í því efni. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel að orð hv. þingmanns um að formaður umhverfisnefndar geri pólitískan mismun á nefndarmönnum í starfi og í fundarstjórn séu vanhugsuð. Og enn vil ég segja að ég óska þess að atvik af þessu tagi spilli ekki samstarfi í þinginu eða raski þeim starfsvettvangi sem menn hafa valið sér og bið hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að endurskoða þá ákvörðun sína að segja sig úr umhverfisnefnd.