139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Kannski er dagurinn í dag dagur hinna stóru afsakana, afsökunarbeiðna og slíks, og ég fagna því að menn hafi hafið það. Ég held að einstaka hv. þingmenn eigi reyndar eftir að biðjast afsökunar á ýmsum öðrum stóryrðum sem þeir hafa lagt til, m.a. í umræðum um skipulagsmál í sveitahreppum við Þjórsá. Þar hafa menn ráðist gegn lýðræðislega kjörnum fulltrúum með digurbarkalegum stórmælum í þingsal eða í fjölmiðlum. Þetta á sérstaklega við um ýmsa stjórnarþingmenn og reyndar einstaka ráðherra. Til að mynda varð hæstv. fjármálaráðherra það á í gær að láta að því liggja að sveitarfélag og ríkisstofnun hefðu keypt sér skipulag þrátt fyrir að í nýföllnum hæstaréttardómi hefði einmitt verið afar skýrt kveðið að orði um það og allir aðilar þar af leiðandi hreinsaðir af slíkum brigslum og áburði. Kannski er kominn tími til að fleiri komi í pontu og biðjist afsökunar á orðum sínum.

Aðeins varðandi skipulagsvaldið sem við ætlum reyndar að ræða í dag af sérstöku tilefni, um dóm Hæstaréttar, þá held ég að skipulagsmálin séu kannski komin á ákveðnar villigötur þegar við erum daginn út og daginn inn farin að ræða um skipulagsmál sveitarfélaga og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um leið og við erum að ræða um umhverfisvernd. Kannski ætti þessi málaflokkur að heyra undir innanríkisráðherra þar sem þetta er stjórnsýslumál. Þetta mál, dómur Hæstaréttar, er auðvitað stjórnsýslulegt mál og hefur ekkert með umhverfisvernd að gera. Kannski ættum við að íhuga það að stjórnskipulega séð ætti þessi málaflokkur að heyra undir innanríkisráðuneytið en ekki umhverfisráðuneytið.