139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég beini því til forseta að hún beiti sér fyrir umræðu í þinginu um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar í kjölfarið og umfjöllun um þingsályktunartillöguna sem samþykkt var í þinginu 63:0 sem þingmenn virðast hafa gleymt eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir opinberaði svo vel í ræðu sinni, þrátt fyrir að vísað væri í þá samþykkt, að hér ætti að beita betri vinnubrögðum. Í ræðu hv. þingmanns var vaðið yfir alla fulltrúa sem kjörnir eru til setu í sveitarstjórnum á Íslandi.

Þetta er alvarlegur hlutur og sérstaklega vegið að því ágæta fólki sem sinnir þessum störfum á Suðurlandi. Þetta er ekki boðlegur málflutningur og ég tel að hv. þingmaður ætti að koma upp og biðjast afsökunar á orðum sínum í garð þessa ágæta fólks.