139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:42]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir tillögu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að við ræðum betur og ítarlegar um þingsályktunartillöguna sem við köllum stundum 63:0 og niðurstöður þingmannanefndarinnar. Ég vil líka bæta við þá tillögu að haldið verði ítarlegt námskeið fyrir þingmenn í íslenskri stjórnmálasögu. Þar verði farið í gegnum stjórnmálasöguna á 20. öld og dregnir af henni lærdómar sem ég held að hollt sé að við sem tökum þátt í stjórnmálastarfi höfum til hliðsjónar af því við gerum ekkert rétt ef við þekkjum ekki söguna.

Svo vil ég, frú forseti, fá tækifæri til að bera af mér sakir því ég talaði um fjölda og stærð sveitarfélaga á Íslandi sem hafa hinu mikla umhverfishlutverki að gegna að vinna m.a. skipulagsvinnuna. Ég nefndi orðin „sunnlensk hreppapólitík“ og það var ekki árás á nokkurn mann.