139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og ítreka við forseta, af því gefna tilefni að hæstv. fjármálaráðherra var hleypt í ræðustól til að útskýra hvað hann hefði átt við í ræðu í gær, að það muni verða viðhaft framvegis þegar við lendum í þeirri stöðu að út úr orðum okkar sé snúið, að okkar mati.

Varðandi þá ræðu sem var haldin í gær verður hún auðvitað að skoðast, frú forseti og hæstv. fjármálaráðherra, út frá umræðunni. Við vorum að ræða sveitarfélagið Flóahrepp, aðalskipulag þess og dóm Hæstaréttar og Landsvirkjun. Í þeirri umræðu voru þau orð sem nú hafa verið lesin upp af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur höfð eftir hæstv. fjármálaráðherra og þeim verður ekki breytt.