139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

breytingartillögur og ræðutími í umræðum um Icesave.

[15:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta útspil stjórnarflokkanna um það hvort breytingartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sé þingtæk leika menn hér einhvern pólitískan leik. Það er búið að liggja lengi og mikið yfir þessari breytingartillögu og nefndasvið Alþingis hefur farið yfir hana hvað eftir annað. Ég dreg ekki í efa þá hæfni, ég þakka ábendingu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og mun að sjálfsögðu þiggja ábendingar í framhaldinu ef einhver atriði eru þar sem mönnum telst til að þurfi að skoða. Þessi tillaga er afgreidd með mjög vönduðum hætti frá nefndasviði Alþingis og var farið rækilega ofan í það, einmitt vegna mikilvægis þessa máls, til að tryggja að hún fengi eðlilegan framgang hér.

Hvað varðar lengri ræðutíma vil ég minna á að fjárlaganefnd óskaði eftir áliti frá efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd og komu þrjú álit frá viðskiptanefnd um þetta mál og tvö frá efnahags- og skattanefnd. Það er frekar lítill tími til að ræða málið í þaula (Forseti hringir.) eins og þarf að gera og ég tek undir og óska eftir því að veittur verði rýmri ræðutími við 3. umr.