139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að gera grein fyrir áliti meiri hluta viðskiptanefndar vegna gagnrýni hv. þm. Þórs Saaris í nefndaráliti sem hann lauk við að gera grein fyrir rétt í þessu. Ástæða þess að meiri hluti viðskiptanefndar telur að ekki eigi að hækka sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki sem við innleiddum um áramótin er að það leiði samkvæmt Fjármálaeftirlitinu af sér aukinn vaxtamun. Aukinn vaxtamunur þýðir einfaldlega að útlánavextir eða vextir á skuldum heimilanna hækki. Ef það verður raunin er með slíkri hækkun sérstaks bankaskatts verið að leggja byrðarnar af Icesave á einn hóp skattgreiðenda, sem eru skuldsett heimili, en sleppa þeim sem kannski geta einna helst tekið þær á sig.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari spyr jafnframt hvernig standi á því að ágætlega menntað fólk eins og það sem er í viðskiptanefnd taki undir með Fjármálaeftirlitinu um að bankakerfið geti ekki tekið á sig auknar álögur. Ástæðan er sú að Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstofnun sem við í viðskiptanefnd höfum gefið auknar heimildir til að gera vettvangskannanir á þessum fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið gerir jafnframt álagspróf, kannar hversu mikil útlánatöp bankarnir þola og álögur. Þessi álagspróf reyndust ekki mjög vel fyrir hrun en þau hafa verið aðlöguð eða þeim breytt í ljósi reynslunnar af hruninu. (Forseti hringir.) Það er m.a. ástæðan fyrir því að við treystum mati Fjármálaeftirlitsins.