139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem við greiðum nú atkvæði um er að flestu leyti sambærileg þeirri sem var felld hér fyrir skömmu, en ég styð þessa tillögu eins og ég studdi hina fyrri.

Mig langar hins vegar til að ítreka þau sjónarmið sem ég tefldi þá fram um að við erum komin í mjög miklar ógöngur í allri umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hið sama gildir t.d. um það hvernig menn geta staðið að undirskriftasöfnunum og hvaða mál eiga með réttu erindi til þjóðarinnar.

Það sem ég tel vera réttlætingu fyrir því að þetta mál fari til þjóðarinnar er saga málsins og hvernig það hefur ratað hingað til okkar öðru sinni. Ég tel hins vegar að þetta sé efnislega allt annars eðlis en hið fyrra sem rataði til þjóðarinnar.

Menn hafa t.d. talað um að mál af þessum toga eigi alls ekkert erindi til þjóðarinnar en þá er það að athuga að (Forseti hringir.) ekkert er því til fyrirstöðu í okkar lögum, í okkar stjórnarskrá, að forsetinn geti sent hvaða mál sem er til þjóðarinnar. Allt þetta hljótum við að þurfa að taka á þinginu til endurskoðunar.