139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

afturköllun þingmáls.

[15:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ekki er ein báran stök og í dag, 16. febrúar 2011, losnar um nokkrar klemmur sem við ýmis höfðum komið okkur í eftir hrunið mikla haustið 2008. Við vitum öll hvað gerðist áðan og í Héraðsdómi Reykjavíkur féll í morgun úrskurður þar sem níumenningarnir svokölluðu voru sýknaðir af ákæru um brot á 100. gr. almennra hegningarlaga um árás á Alþingi svo að því eða sjálfræði þess væri hætta búin. Aðrir níumenningar, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Margrét Tryggvadóttir, Lilja Mósesdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson, höfðu borið upp tillögu á þinginu um afstöðu í þessu efni og við bregðumst með fögnuði við þessum fréttum á þann hátt að ég hef nú skrifað bréf fyrir hönd flutningsmanna þar sem þetta mál er kallað aftur. (Forseti hringir.) Þá stendur aðeins upp á Alþingi og forustumenn þess að biðja níumenningana afsökunar (Gripið fram í: Heyr, heyr.) á upphaflegu kærubréfi sem héðan barst (Forseti hringir.) þar sem ríkisvaldinu og saksóknurum var att á þetta fólk vegna hinna meintu árása á Alþingi (Forseti hringir.) samkvæmt 100. gr. Ég fer fram á það við forseta að hann gangi strax í það að biðja þetta fólk afsökunar og velvirðingar á því sem hér hefur gerst.