139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

stjórn fiskveiða.

304. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem fela það í sér fyrst og fremst að skipuð verði aflaráðgefandi nefnd sjómanna.

Í 1. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar og aflaráðgefandi nefndar, sbr. 3. gr. a., ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.“

Hugsunin á bak við þetta frumvarp er fyrst og fremst sú að styrkja ráðherra í ákvörðun sinni þegar hann tekur ákvörðun um heildaraflamagn og eins að reyna að brúa það bil sem er á milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar.

Frumvarp sama efnis var flutt á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Með frumvarpinu er lagt til að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt á þann hátt að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður heildarafla hvers fiskveiðiárs skuli hann leita tillagna hjá aflaráðgefandi nefnd sem skipuð er hagsmunaaðilum. Er því lagt til að nefndin sé skipuð fimm fulltrúum þar sem Félag skipstjórnarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands tilnefna einn fulltrúa hver.

Við flutning frumvarpsins á fyrrnefndu þingi var þetta með sama hætti. Ég sagði í ræðu minni þá líka þegar ég mælti fyrir frumvarpinu að þetta væri í sjálfu sér ekki heilög tala og væri hugsanlega æskilegt að fjölga þeim aðilum sem ættu sæti, þá meðal skipstjórnarmanna sem að sjálfsögðu hafa mestu þekkinguna og reynsluna af að gera sér grein fyrir stærð fiskstofnanna. Eins kom í umsögnum um það frumvarp að Félag vélstjóra og málmtæknimanna gerði athugasemd við að það sé ekki talið sem hagsmunaaðili og fái því ekki að tilnefna í nefndina.

Þetta tel ég að þurfi að skoðast í meðförum nefndarinnar. Ég mundi engar athugasemdir gera þótt fjölgað yrði í nefndinni, jafnvel breytt hlutföllum sem hér er rætt um og að til að mynda Félag vélstjóra og málmtæknimanna skipaði einnig í þessa nefnd.

Skulu tillögur nefndarinnar liggja fyrir á sama tíma og tillögur Hafrannsóknastofnunar en þó er gerð sú undantekning í ákvæði til bráðabirgða að nefndin geri jafnframt tillögur fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og skili þeim til ráðherra sem geti þá gert breytingar á fyrri ákvörðun um heildarafla.

Hugsunin á bak við þetta er sú að ég tel mikið svigrúm til að bæta akkúrat við heildaraflann á þessu ári og það væri mjög æskilegt að það yrði gert.

Lagt er til að nefndinni verði gert að byggja tillögugerð sína m.a. á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi tillögugerðar. Með þessu yrði tryggt að reynsla sjómanna og þekking þeirra nýttist við ákvörðun heildarafla. Nefndin getur þó jafnframt leitað í önnur gögn eða til þeirra aðila sem hún telur þörf á. Áhersla er lögð á að tillögur nefndarinnar miði að því að nýta fiskstofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi þannig að þeir verði hvorki ofnýttir né vannýttir. Þá verði kveðið á um að nefndin gæti að samræmi milli tegunda í tillögum sínum.

Gert er ráð fyrir að kostnaður af starfi aflaráðgjafarnefndar verði greiddur af þeim hagsmunaaðilum sem tilnefni fulltrúa í nefndina.

Að gefnu tilefni vil ég árétta að það er einungis átt við nefndarstarfið og þann kostnað sem hlýst fyrir viðkomandi aðila af því að sitja í nefndinni en ekki það að reka þann gagnabanka og það sem því fylgir að setja þetta verkefni af stað. Ég kem betur inn á það á eftir.

Á undanförnum árum hefur sterk umræða farið fram um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Bent hefur verið á að ráðgjöfin endurspegli ekki álit þeirra sem starfa á vettvanginum allan ársins hring, sjómanna og skipstjórnarmanna. Aflaráðgefandi nefndinni er ætlað fyrir 1. maí ár hvert að senda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögur sínar um heildarafla sem æskilegt er að komi til úthlutunar á komandi fiskveiðiári. Ráðgjöf nefndarinnar verður byggð á reynslu og þekkingu sjómanna sem er þjóðinni ómetanleg og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi. Sjómenn hafa mikla almenna þekkingu á lífríkinu í hafinu auk þess sem sjómenn hafa víðtæka reynslu og þekkingu á öllu því sem viðkemur veiðum, ástandi einstakra fiskstofna og veiðisvæða og skilyrðum í sjó. Þá hafa orðið gríðarlegar breytingar á undanförnum árum hvað varðar tækninýjungar um borð í skipum sem lúta að upplýsingum um ástand sjávar, skráningu afla og nýtingu, svo fátt eitt sé nefnt. Öflugir gagnagrunnar hafa þannig orðið til sem auðvelda sjómönnum, skipstjórum og útgerðarstjórum að lesa í lífríkið. Áður fyrr varðveittust upplýsingarnar eingöngu í dagbókum sjómanna og minni þeirra. Með starfi nefndarinnar yrði til vettvangur fyrir úttekt úr reynslubanka sjómanna sem byggst hefur upp í áratugi, þekkingu þeirra á veiðum og aflabrögðum, ástandi einstakra fiskstofna og veiðisvæða, skilyrðum í sjó og almennt um lífríkið í hafinu.

Tillögum og ráðgjöf aflaráðgefandi nefndar er ætlað að styrkja ákvörðun ráðherra um ákvörðun á heildarafla. Nefndinni er ætlað að brúa þá gjá sem nú er milli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og reynslu sjómanna af stærð einstakra fiskstofna, auk þess að bæta við þekkingu vísindamanna Hafrannsóknastofnunar með samanburði við niðurstöður togararalls.

Samhliða tillögugerð til ráðherra er augljóst að miklum upplýsingum verður safnað sem geta nýst í gerð gagnagrunns um þá þekkingu og reynslu sem sjómenn afla sér í daglegri umgengni við fiskstofna umhverfis landið, auk þess að nýtast Hafrannsóknastofnuninni við störf sín. Gagnagrunn af þessu tagi mætti vinna áfram í samvinnu við háskólasamfélagið og mundi hann því ekki eingöngu nýtast til frekari tillögugerðar og gera nefndina færari um að meta þolmörk fiskstofna heldur einnig til framtíðar í vísindum, rannsóknum og kennslu.

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fara hér yfir greinargerðina með frumvarpinu og kominn þar sem þetta gæti nýst háskólasamfélaginu til upplýsingar í framtíðinni. Mætti að mínu viti skoða mjög alvarlega hvort t.d. Háskólasetri Vestfjarða yrði ekki falið að halda utan um starf nefndarinnar og nýta þær upplýsingar sem yrðu til við þennan gagnagrunn og þær upplýsingar sem sjómenn og þeir sem starfa í greininni munu koma áleiðis til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú er ástandið þannig á miðunum í kringum landið að enginn samhljómur er á milli útgerðarmanna eða sjómanna og Hafrannsóknastofnunar. Í Breiðafirði og á mörgum stöðum í kringum landið eru bátar fullir af fiski dag eftir dag. Að mínu viti segir það allt um það hversu mikið barn síns tíma togararallið er. Ég held reyndar að það yrði mjög hollt fyrir vísindasamfélagið að fá sjónarmið þeirra sem starfa á vettvangi, þ.e. sjómannanna sjálfra og mannanna í útgerðinni, og nýta sér þær upplýsingar til framdráttar og til að styrkja sig í vísindum sínum.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að áætlað væri að kostnaðurinn við skipun í nefndina yrði greiddur af þeim félögum sem skipuðu í hana. Það sem ég er að draga hér fram, virðulegi forseti, er að sá gagnagrunnur sem yrði til og hugsanlega vistaður í Háskólasetri Vestfjarða yrði að sjálfsögðu ekki kostaður af viðkomandi félögum sem mundu skipa í nefndina. Það eru margar leiðir til að gera það. Það er hægt að setja það á fjárlög, það er hægt að sækja um í AVS-sjóðinn og fleira gæti komið til. En það er mjög mikilvægt að þetta verði gert til þess einmitt að nýta þá þekkingu og reynslu sem sjómenn hafa.

Bara þessu til áréttingar langar mig að rifja upp það sem gerðist á síðasta ári. Ég hélt margar ræður í þessum stól og taldi algjörlega óhætt að bæta við þorskveiðiheimildir. Þá notaðist ég eingöngu við rök Hafrannsóknastofnunar. Á síðasta ári var áætluð stofnstærð þorsksins 702 þús. tonn. Samkvæmt aflareglunni vorum við að byggja þorskstofninn úr 702 þús. tonnum upp í 762 þús. tonn. Ég flutti hér tillögu um að bæta við þorskkvótann um 35 þús. tonnum sem hefði þýtt það að við hefðum byggt þorskstofninn úr 702 þús. tonnum upp í 718 þús. tonn. Ég taldi það nægjanlegt í því atvinnuástandi sem nú er í landinu og ríkjandi efnahagsástandi. Ég sagði hins vegar oft að ég væri í þessum málflutningi mínum eingöngu að vísa til tölulegra staðreynda sem ég tek upp úr gögnum Hafrannsóknastofnunar. Ég hef hins vegar haldið því fram, byggi það á reynslu minni til sjós í mjög langan tíma og sæki ekki síst til þeirra manna sem ég þekki og starfa þar, að svigrúmið sé miklu meira.

Síðan kom reyndar í ljós, sem var mjög ánægjulegt og það álit sjómanna var staðfest, að þorskstofninn sem var verið að byggja upp í 762 þús. tonn á síðasta ári, þegar Hafrannsóknastofnun fór í togararallið sitt í fyrravor, var orðinn 846 þús. tonn, þ.e. hann hafði vaxið miklu meira en ráð var fyrir gert. Það er hið besta mál. Það staðfesti þá þær upplýsingar og þá upplifun sem sjómenn höfðu af miðunum. Þess vegna tel ég alveg óskiljanlegt af hverju ekki er brugðist við þessu núna og bætt við þorskveiðiheimildir til að bregðast við því atvinnuástandi sem hér er, ekki síst til að skapa að sjálfsögðu aukin verðmæti og hagsæld í landinu. Einhverra hluta vegna er staðan þannig að hér pexar fólk og rexar um það sem skiptir minnstu máli. Það er búið að setja sjávarútveginn í algjöra óvissu og uppnám í allt of langan tíma sem stendur okkur fyrir þrifum í uppbyggingu.

Ég sagði áðan undir liðnum um störf þingsins að ég hefði heimsótt mjög glæsilegt fyrirtæki, 3X-Stál á Ísafirði, og að í eðlilegu árferði seldi þetta fyrirtæki á innanlandsmarkaði 50–70% af framleiðslu sinni. Það er saga fyrirtækisins. Hver er staða þessa fyrirtækis í dag? Hún er reyndar mjög fín, ágætisverkefnastaða, það hefur þurft að fækka fólki á undanförnum árum, hefur getað staðið í stað á síðustu missirum og í fyrsta sinn í sögu félagsins hefur það þurft að segja upp fólki. Nú er staða fyrirtækisins sú að einungis útlendingar versla við það. Enginn innlendur aðili verslar við þá, bara vegna þessarar óvissu. Þetta segir okkur allt um það ástand sem nú ríkir.

Ég segi enn og aftur, virðulegi forseti, að ef við þurfum ekki tekjur og störf núna þurfum við það aldrei. Við erum að ganga í gegnum eitt erfiðasta tímabil Íslandssögunnar. Við vorum á síðasta ári með minnstu fjárfestingu í sögu lýðveldisins. Við þurfum svo sannarlega að koma atvinnumálunum í lag. Við greiddum á þremur árum 70 milljarða í atvinnuleysisbætur. Samt erum við að gera þetta með þessum hætti. Þetta er óskiljanlegt og mjög óábyrgt að mínu mati.

Mig langar líka til viðbótar að fara yfir þær staðreyndir sem sjómenn hafa haldið fram í gegnum tíðina og rökstyðja mál mitt aðeins frekar. Oft og tíðum hefur ekki verið mikill samhljómur milli sjómanna og útgerðarmanna og Hafrannsóknastofnunar þegar menn meta til að mynda stofnstærð fiskstofnanna. Ef ég tek hér tvær fisktegundir sem ég ætla að gera, annars vegar ufsa og hins vegar ýsu, var á fjögurra ára tímabili ráðgjöfin í ufsa sú að við veiddum 110 þús. tonn samanlagt á þessum fjórum árum. Niðurstaðan varð hins vegar sú þar sem ekki var farið eftir aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að við veiddum 145 þús. tonn á þessum fjórum árum, þ.e. 32% umfram ráðgjöf á hverju einasta ári í fjögur ár. Hvað skyldi hafa gerst þá? Það sem gerðist þá var að eftir þessa fjögurra ára ofveiði lagði Hafrannsóknastofnun til að ufsakvótinn yrði aukinn um 43%.

Ef ég fjalla örlítið um ýsuna er þetta heldur skrautlegra þar. Á fjögurra ára tímabili gerðu tillögur Hafrannsóknastofnunar ráð fyrir því að við mundum veiða 130 þús. tonn af ýsu. Niðurstaðan varð sú að við veiddum 171 þús. tonn á þessum fjórum árum, þ.e. 33% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, öll árin, að meðaltali hvert einasta ár, fjögur ár í röð. Hver væru þá eðlileg viðbrögð og niðurstaða eftir slíka ofveiði að mati stofnunarinnar? Manni finnst það blasa við, nú væri komið að svokölluðum skuldadögum, við værum búin að ofveiða stofninn að meðaltali um 33% fjögur ár í röð. Þá gerðist nefnilega nokkuð merkilegt, eftir þessa fjögurra ára ofveiði lagði Hafrannsóknastofnun til að við mundum auka ýsukvótann um 83%. Það er ekki mikill samhljómur í þessu. Það er kannski þetta, virðulegi forseti, sem sjómenn hringinn í kringum landið hafa bent á í gegnum tíðina, það er ekki samræmi á milli þess sem gerist á miðunum og tillagna Hafrannsóknastofnunar.

Í síðustu viku fórum við út í kjördæmin. Á síðustu tveimur árum er búið að minnka ýsukvótann um 50%. Það er búið að kippa rekstrargrunninum undan mjög mörgum útgerðum og til að mynda á Hólmavík og Drangsnesi er staðan mjög alvarleg. Veiðin í þeim plássum eins og svo mörgum öðrum er mikil. Ég nefni sérstaklega þessa tvo staði vegna þess að ég hitti þar sjómennina og þeir hafa engar heimildir. Nú er þetta allt saman að stoppast. Svo er fólk hissa á því þegar bolfiskkvótinn er skorinn niður um 60 þús. tonn að það muni hafa einhverjar afleiðingar. Það er beinlínis verið að leggja niður störf með því að taka svona vitlausar ákvarðanir. Þetta er eitt dæmið enn um það að menn meta ekki ástandið í sjónum rétt. Það hefur verið mikil áskorun frá þeim ásamt mörgum öðrum um að bætt yrði við þessar aflaheimildir. Nei, það er ekki hlustað á það, það er eingöngu horft á einhver reiknilíkön og excel-skjöl sem segja til um hvað við eigum að gera, en ekki tekið tillit til þess sem er að gerast, hvorki á miðunum né úti á landsbyggðinni.

Á hverju byggir Hafrannsóknastofnun að stærstum hluta ráðgjöf sína? Hún byggir hana á svokölluðu togararalli. Mín skoðun á því er sú að það sé algjörlega barn síns tíma, bara vegna þeirra breytinga og aðstæðna sem hafa orðið í hafinu í kringum Ísland á síðustu árum. Það eru mörg dæmi um það, til að mynda breytt ýsugengd og skötuselurinn sem varð frægur fyrir nokkrum mánuðum þegar menn rexuðu og pexuðu um það hvernig göngumynstur hans hefur breyst. Það er ekkert tillit tekið til alls þessa. Nú fer rallið fram með þeim hætti að það eru tekin fyrir fram ákveðin tog á ákveðnum stöðum sem reyndar er stundum bætt við og menn reyna að meta þetta eftir bestu getu. Ég er ekki að saka menn um að þeir séu ekki að vinna vinnuna sína. Hafrannsóknastofnun vinnur úr þeim gögnum sem hún fær og leggur metnað sinn í það. Það má ekki skilja mig svo að ég telji þá ekki gera það með réttum hætti.

Hins vegar tel ég mjög mikilvægt að við breytum þessari aðferðafræði vegna breytinga sem hafa orðið í sjónum. Það er hægt að segja margar sögur af því þegar menn taka tog í togararallinu, þá eru menn að toga fyrir fram ákveðinn stað og þeir þurfa ekki að færa sig til nema kannski um hálfa mílu frá því að fá nánast ekki neitt í trollið og vera svo með það nánast fullt, bara vegna skilyrðanna í sjónum. Þetta þekkja menn sem lengi hafa stundað sjó.

Þessi breyta er allt of lítið tekin með. Það eru mörg dæmi um frásagnir skipstjórnarmanna um að skipið í togararallinu togaði örstutt frá þeim og fékk nánast ekki neinn afla, en hinir voru með mokafla. Þessu verðum við að breyta. Við verðum að virkja frekar aflaráðgefandi nefnd sjómanna þannig að það sé hægt að meta stærðina af skynsemi.

Menn festast alltaf í einhverri frasakenndri umræðu um eitthvert kvótakerfi og fiskveiðistjórnarkerfi í staðinn fyrir að fara aðeins dýpra í umræðuna og reyna að skilja hana. Þegar kvótakerfið var sett á 1983 var hrygningarstofninn um 130 þús. tonn, nú er hann 300 þús. tonn. Hann hefur þrefaldast á þessum tíma. Það sem mér hefur alltaf fundist við þurfa að ræða frekar eru allar þær breytingar sem hafa orðið í því hvernig við högum veiðunum. Til að mynda hættum við að veiða hval sem hefur gríðarleg áhrif á afkomu og afrakstur fiskstofna, hvort heldur það eru stórhveli eða hrefna. Ég þekki þetta vel á mínu heimasvæði þar sem allt í einu fór að flæða inn á Breiðafjörðinn mikið magn af hrefnu sem hafði ekki sést þar. Það var mjög sjaldgæft að sjá hana þar áður fyrr. Hún fór að flæða inn og éta mikið af síli uppi á Grunnavíkinni. Síðast en ekki síst gerir það það að verkum að við höfum gengið mjög nærri veiði á t.d. loðnu, við höfum gengið mjög nærri henni á mörgum árum, og það nýjasta er að það á að fara að veiða gulldeplu og það er bara farið í að hrifsa ætið frá fiskinum án þess að hugsa málið til enda. Þetta tel ég að við þurfum að ræða miklu frekar. Gagnrýni sérstaklega sjómanna og útgerðarmanna við Breiðafjörð hefur oft verið hversu langt hefur verið gengið í því að veiða loðnu í Breiðafirði í restina á göngunni þar sem hún er að fara að hrygna í staðinn fyrir að leyfa lífríkinu að njóta vafans. Að mínu viti hafa mjög oft verið teknar mjög stórar ákvarðanir um hversu mikið megi veiða af loðnu, sérstaklega á fyrri árum.

Síðast en ekki síst hefur það gerst undanfarið eins og við höfum orðið vör við, sérstaklega af deilunni við Evrópusambandið og Norðmenn, að makríllinn flæðir yfir þetta hafsvæði hér. Hvað er hann að gera? Hann kemur inn í þessa landhelgi til að fita sig og ná sér í æti og þess vegna breytir hann göngumynstrinu. Það gerist t.d. þar sem ég á heima að hann étur allt smásílið, ryksugar þetta allt upp. Menn hafa séð þetta frekar í fréttum um kríuvarpið, þar deyr allur unginn vegna þess að það er ekkert æti. Við höfum heyrt þetta frá fleiri stöðum. Þetta er mjög áberandi. Ég hef horft á það sjálfur þar sem makríltorfurnar elta sílistorfurnar nánast inn að bryggju, alveg inn í krikann á höfnunum þar sem makríllinn étur smásílið, aggamorið eins og það var kallað, eins og höfrungarnir átu síldina. Það er nákvæmlega það sama. Við þurfum að fara miklu dýpra í allri þessari umræðu og það er von mín að einmitt þegar búið verður að skipa svona nefnd geti menn fært umræðuna inn á þetta svið þar sem menn ræði málið málefnalega og meti og skoði hvað það þýði í raun og veru þegar við breytum veiðimynstrinu.

Af því að við tölum oft á Alþingi um að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu hef ég verið hugsi yfir því í mjög langan tíma hvernig standi á því að einungis einn aðili, þ.e. hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, taki ákvörðun um heildaraflamark í hverri tegund. Ég er mjög hugsi yfir því. Þetta er alræðisvald og allir bíða spenntir yfir því hvað hæstv. ráðherra skyldi detta í huga að gera. Af hverju breytum við þessu ekki? Af hverju breytum við þessu ekki hér og segjum: Hæstv. ráðherra leggur tillögu fyrir Alþingi og færir fyrir henni rök? Það tel ég að væri mjög skynsamlegt að gera.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, og það hefur reyndar komið fram í máli margra hv. þingmanna sem hafa tekið undir það sem ég er að segja, að núna sé mikið svigrúm til að bæta við þorskveiðiheimildir, til að skapa störf, skapa tekjur, skapa vinnu og hagsæld fyrir þjóðfélagið. Ég hugsa að það sé jafnvel meiri hluti fyrir því á þinginu að gera það en við sitjum hér inni, 63, og bíðum alltaf eftir skipun frá einum aðila, hæstv. ráðherra.

Ég tel mjög mikilvægt að við tökum hreinskiptar umræður um hvort þetta sé ekki eitt af því sem þurfi að breyta, þ.e. hæstv. ráðherra kemur með tillögu, færir fyrir henni rök og síðan ræður niðurstaða þingsins. Þetta er hlutur sem við mættum læra af. Ég tel mikilvægt að breyta þessu. Það má ekki skilja það svo að ég sé eingöngu ósáttur við þennan hæstv. ráðherra. Ég er búinn að vera ósáttur við marga hæstv. sjávarútvegsráðherra á undan honum og hef rifist mikið við þá um þessi atriði. Þessu alræðisvaldi verðum við að breyta.

Síðast en ekki síst hef ég verið að hugsa þetta dálítið undanfarið út af reglugerðarheimildum sem hæstv. ráðherra hefur. Eins og í þessu tilfelli, af því að við erum að ræða sjávarútvegsmál held ég mig við það, hafa ráðherrarnir alls konar heimildir í lögum til að setja reglugerðir um nánast allt sem þeim dettur í hug. Það virðist vera þannig. Nærtækt dæmi er nokkuð sem ákveðin umræða varð um í haust þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var búinn að vera í aðför að dragnótaveiðimönnum með algjörlega óskiljanlegum hætti. Hann hefur ekkert sér til málsbóta, af því að honum finnst að hann þurfi að gera eitthvað gerir hann það. Vísindaleg rök voru engin, engin stoð í þeim. Síðan taka menn svona ákvarðanir, einn aðili. Það væri þó eðlilegra að hæstv. ráðherra legði ákvörðunina fyrir þingið, við fjölluðum um hana efnislega og tækjum síðan umræðu um það hvort við teldum það skynsamlegt sem ráðherrann legði til og ákvæðum það hér inni. Nei, hæstv. ráðherra kemur fram úr rúmi einhvern daginn og gerir það sem honum dettur í hug. Þetta er algjörlega óþolandi. Þessi aðför hæstv. ráðherra að dragnótaveiðimönnum er algjörlega óskiljanleg og óafsakanleg. Þar er sett í uppnám fullt af útgerðum, fullt af störfum hjá sjómönnum, með engum rökum. Ekki vísindalegum, ekki umhverfisrökum eða neinu. Hann er bara rétt að byrja, hæstv. ráðherra. Hann boðar það. Hæstv. ráðherra er bara rétt að byrja á vegferð sinni.

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta sé það sem við þurfum núna, að leggja niður störf. Nei. Það er ómanneskjulegt að ganga svona fram gagnvart þeim aðilum sem starfa í þessari grein og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Hæstv. ráðherra svarar engu sem sent er til hans, virðir þá ekki neins, ekki einu sinni að svara efnislega þeim spurningum sem eru bornar upp. Við verðum að breyta þessu nema við viljum áfram hafa það þannig að ríkisstjórnin kalli okkur bara til til að greiða atkvæði þegar henni hentar. Þessu verður að breyta. Ég tel mjög mikilvægt að menn taki umræðu um að færa þetta alræðisvald frá ráðherrunum inn til þingsins.

Hugsunin á bak við þetta frumvarp eins og ég er búinn að koma að er sú að setja hér á aflaráðgefandi nefnd sjómanna til að gera tillögur til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hann meti það og vegi sem þeir leggja til. Þeir byggja tillögur sínar á þekkingu sinni og grunni, þeir sem starfa úti á miðunum allan ársins hring alla daga en fara ekki einungis nokkra daga til að taka einhverjar prufur hér og þar. Það er gagnagrunnur, það eru upplýsingar, það eru rök sem þessir menn mundu færa fyrir ákvörðunum sínum þegar þeir leggja eitthvað til. Hæstv. ráðherra, og væntanlega þingið ef menn mundu gera þetta eins og ætti að gera það að mínu viti, gæti þá bara tekið afstöðu til þess. Ég held því ekki fram að það eigi að fara eingöngu eftir þeim, en ég tel að það muni styrkja bæði hæstv. ráðherra og þingið í ákvarðanatökunni um akkúrat hvert heildaraflamagnið mætti vera að hafa á borðinu tvö sjónarmið. Það er ekki sjálfgefið að þessi sjónarmið verði alltaf langt hvort frá öðru þótt þau hafi verið það mörg undanfarin ár. Ég tel að þetta muni eingöngu styðja ákvörðun ráðherrans þegar hann tekur efnislega afstöðu til þess hvað hann vill veiða úr viðkomandi stofnum.

Ég tel, virðulegi forseti, að við séum búin að henda mjög miklum verðmætum á þessum erfiðustu tímum sem við höfum farið í gegnum í mjög langan tíma með því að bæta ekki við veiðiheimildir, skapa störf og atvinnu, tekjur og annað. Við gætum verið í miklu betri málum en við erum því að svo sannarlega þurfum við að koma atvinnulífinu í gang, ekki síst sjávarútveginum sem er undirstöðuatvinnugreinin, og nýta það eins mikið og við getum á þessum tímum.