139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Við erum í viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að því. Það var lögð inn umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Við erum í viðræðum við Evrópusambandið um aðild.

Þegar spurt er um aðlögun, hvort við séum í aðlögunarviðræðum, verða menn fyrst að spyrja: Hvað felst í hugtakinu aðlögun? Ef það felst í því hugtaki, eins og mér hefur oftast virst, að við þurfum að innleiða lög eða reglur eða breyta stofnanakerfi okkar í átt að því eða til samræmis við það sem er hjá Evrópusambandinu á meðan á þessum viðræðum stendur og áður en þjóðin hefur ákveðið hvort hún vill fara þar inn eða ekki, fullyrði ég hiklaust og stend við það: Það er ekki svo. Því er ekki til að dreifa. Ef menn leggja einhvern annan skilning í hugtakið „aðlögun“ verða menn að skýra það. En þetta er sá skilningur sem mér hefur virst vera í umræðunni. Ég hafna því að um það sé að ræða.

Þingmaðurinn spurði líka hvort það væri rétt að forsætisráðherra hæstv. hefði beitt þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þrýstingi eða hótunum af einhverju tagi og hótað því að stjórnin mundi falla ef tillagan yrði ekki samþykkt. Ég hef persónulega ekki orðið fyrir neinum slíkum þrýstingi eða hótunum og ég hef ekki orðið vitni að því sjálfur prívat og persónulega þannig að ég get ekki staðfest að slíku hafi verið til að dreifa.

Síðan varðandi kostnaðinn, 7 milljarðana, og hver kostnaðurinn sé, verð ég að vísa í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar á þingskjali 249 frá 137. löggjafarþingi þar sem er fjallað um kostnaðinn í fylgiskjölum og í greinargerð, (Forseti hringir.) hver hann gæti orðið. Mig minnir, og það er sagt með örlitlum fyrirvara, að í fjárlögum ársins 2011 sé um 150 millj. kr. framlag til þessa verkefnis, það er það sem ég get sagt. Kannski þingmaðurinn (Forseti hringir.) sem er í fjárlaganefnd viti það betur. Ég vísa í nefndarálitið (Forseti hringir.) að öðru leyti.