139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka innilega fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún mjög brýn og ég er ánægð með að það sé komin skýrsla þó að hún fjalli eingöngu um neysluviðmiðin en ekki lágmarksframfærslu. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að sett séu fram samræmd lágmarksframfærsluviðmið og vildi gjarnan heyra um einhver tímamörk á því. Ég veit að mjög margir úti í samfélaginu bíða eftir því að svona viðmið komi fram. Við skulum hafa það í huga að öryrkjar, aldraðir og þeir sem eru á atvinnuleysisbótum, margir hverjir, búa við sára fátækt. Þess vegna er nauðsynlegt, svo ég endurtaki það hérna, að á meðan vinna fer fram við að koma með samræmd lágmarksframfærsluviðmið gefi hið opinbera út nú þegar lágmarksframfærsluviðmið til bráðabirgða sem taka mið af þessum nýkynntu neysluviðmiðum.

Ég er sammála því þegar ég horfi á þessar neysluviðmiðstölur í efsta laginu að gríðarleg neysla virðist eiga sér stað hjá almenningi, en ég verð samt að segja að ég býst við að langstærsti hlutinn sé hreinlega matur. Það vita allir sem fara út í búð hvað það er orðið gríðarlega dýrt að framfleyta fjölskyldunni með matvælainnkaupum. Við megum ekki gleyma því hvað allt hefur hækkað skart síðan allt hrundi hér en á meðan hafa bæturnar ekkert hækkað og í tilfellum öryrkja oft lækkað. Það er ólíðandi.

Ég óska eftir einhverjum tímatakmörkunum. Ég hvet jafnframt þá sem hafa tök á því að koma með tillögur (Forseti hringir.) að breytingum á vef velferðarráðuneytisins. Það er frestur til 7. mars.