139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda. Ég tel rétt og skylt að við ræðum þá stöðu sem hér er komin upp eða eftir atvikum þá ákvörðun forsetans sem kallaði hana fram. Það er rétt hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að þessi ákvörðun forsetans kom mér á óvart og ég hef sagt það hreinskilnislega. Það þýðir ekki endilega að ég hafi verið algerlega óviðbúinn. Ég kannast reyndar ekki við það og tel að viðbrögð almennt hafi verið hófstillt á báða bóga og allar hendur í framhaldi af þessari niðurstöðu. Það er svo margt búið að gerast og svo stórir atburðir eru búnir að vera það tíðir á síðustu missirum að maður er orðinn nokkuð búinn undir eiginlega flest sem að höndum ber.

Þessi ákvörðun kom mér fyrst og fremst á óvart af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess hvernig það ferli var vaxið sem leiddi til samningsniðurstöðunnar. Að því stóð samninganefnd með aðild allra flokka og náði því sem henni var fyrir sett, að sameinast um niðurstöðu og leggja á borðið þó að allir stæðu síðan ekki að henni í afgreiðslu þingsins. Það er önnur saga. Síðan var aukinn meiri hluti, mjög sterkur meiri hluti, fyrir málinu á þingi, 70% þeirra þingmanna sem afstöðu tóku, meira en tveir þriðju. Í því ljósi fannst mér ólíklegra en ella að þingræðið yrði sett til hliðar með þessum hætti.

Ákvörðun forsetans liggur þó fyrir. Hann staðfesti ekki lögin og þá hefst samkvæmt stjórnarskrá okkar og lögum undirbúningur fyrir kosningu um framtíðargildi laganna. 26. gr. er auðvitað undir og ég get tekið undir það að við hljótum að þurfa að velta ýmsu fyrir okkur í þessu sambandi, þar á meðal t.d. því hvort það eigi að skipta máli hversu umdeild mál eru þegar þau fara í gegnum þingið ef synjunin er um staðfestingu. Skiptir máli hvort þar er minnsti mögulegi meiri hluti eða t.d. aukinn meiri hluti?

Persónulega er ég þeirrar skoðunar líka að við eigum að taka til skoðunar hvort þessum rétti sé ekki betur fyrir komið með skilgreindum hætti og þá um þau mál sem menn verða sammála um að séu til þess fallin að fara í þjóðaratkvæði hjá þjóðinni sjálfri. Sömuleiðis kemur til greina það fyrirkomulag sem t.d. er í stjórnarskrá Dana, að skilgreindur minni hluti þingmanna geti vísað máli í þjóðaratkvæði. Þetta hefur verið áratugum saman í dönskum rétti en aðeins notað einu sinni ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Það er varlega farið með það, m.a. af þeirri ástæðu að stjórnarandstöðu í dag langar til að verða meiri hluti á morgun og hún vill ekki endilega koma á þeirri hefð að það sé mjög oft gripið fram fyrir hendur á þinginu.

Ég vil aðeins upplýsa að samskipti hafa verið í gangi milli landanna þriggja sem hér eiga hlut að máli. Við göngum út frá því að samkomulagið eins og frá því var gengið í Lundúnum og það áritað sé til staðar og verði til staðar að baki kosningum. Haldi lögin framtíðargildi verður hægt að leiða málið til lykta á þeim grundvelli. Hér er um heimildarlög að ræða og það þarf væntanlega ekki að taka það fram við hið háa Alþingi að heimildin verður ekki notuð á meðan þessi staða er uppi.

Að sjálfsögðu er það óbreytt afstaða mín, ríkisstjórnar og ég vona þeirra 44 þingmanna sem studdu málið að vænlegasti kosturinn sé að leiða málið til lykta á grundvelli þess samkomulags sem til staðar er og að menn muni í samræmi við það beita sér í þeim málflutningi sem í hönd fer. Stjórnvöld hafa frá því síðdegis á sunnudag, í gær og í dag, átt í miklum samskiptum, ráðuneyti, utanríkisþjónustan, Seðlabankinn o.fl., við fjölmarga aðila til að upplýsa um þessa stöðu, reyna að miðla upplýsingum og fullvissa menn um að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála hér til að sem minnst óvissa og umrót skapist í þessu millibilsástandi sem er frá og með nú og fram að því að niðurstöður liggi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Fram undan er að undirbúa kosninguna og reyna að sameinast um að standa eins vel að henni og kostur er, miðla hlutlægum upplýsingum og stuðla að málefnalegri umfjöllun. Innanríkisráðherra hefur boðað að kjördagur verði ákveðinn á föstudag. Vonandi tekst góð samstaða um framkvæmd þessara mála í heild sinni þannig að málið sjálft fái sem best að njóta sín og málflutningur um það, rök og gagnrök eftir því sem við á. Að endingu, frú forseti, legg ég til að allir haldi ró sinni sem mest þeir mega og að við stuðlum að því að þetta geti farið uppbyggilega fram (Forseti hringir.) af okkar hálfu.