139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Forseti Íslands ákvað að vísa svokölluðu Icesave-máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki með þeim rökum að hér væri um verri samninga að ræða en áður var vísað í þjóðaratkvæðagreiðsluna því að svo sannarlega hélt forseti því fram, bæði í atkvæðaskýringu sinni á Bessastöðum sem og í fréttaviðtölum erlendis og hér heima, að hér væri um miklu betri samninga að ræða, munurinn væri risavaxinn eins og kemur fram í yfirlýsingu forsetans. (Gripið fram í.) Það stóð sem sagt aldrei til að taka afstöðu til málsins á grundvelli þess hvernig samningurinn liti út, hvort hann væri verri eða betri, heldur var grundvallaratriðið í ákvörðun forsetans byggt á því aðalatriði, eins og segir í yfirlýsingu forsetans, að það sé þjóðin en ekki þingið sem fer með löggjafarvaldið í þessu máli. Gott og vel, það getur verið afstaða forsetans að þannig sé það í þessu máli vegna þess að þjóðin hafi áður fjallað um það og greitt um það atkvæði.

Sú afstaða hefði hins vegar átt að liggja fyrir alveg frá því í þjóðaratkvæðagreiðslunni í mars 2010, og hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Forseti hefði getað tilkynnt þinginu það, þegar þingið tók málið til afgreiðslu og umfjöllunar í desember 2010 alveg þar til í síðustu viku, og búið þingið undir það að hann mundi vísa málinu til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við sem vinnum hér í þinginu, í þingnefndum, hefðum þá getað unnið mál með þeim hætti og undirbúið það fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og flýtt fyrir endanlegri afgreiðslu þess.

Þetta hefði að vísu kostað það að forsetinn hefði ekki fengið þá athygli sem hann vildi fá út úr málinu og allt í fína með það, það er hans tilkostnaður í því. En þetta er glöggt dæmi um það að forseti Íslands hefði getað stundað mun betri vinnubrögð og stjórnsýslu í þessu máli en hann hefur gert hingað til og á örugglega eftir að gera aftur.

Ég hefði (Forseti hringir.) talið að það væri einn sá lærdómur sem forseti Íslands ætti að draga af þessum málatilbúnaði öllum saman, að vanda sig betur við framgöngu sína í málum sem þessum, erfiðum málum, og gagnvart þinginu sömuleiðis.