139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

viðbragðsáætlun við fjármálaóstöðugleika.

[14:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í bankana og fjármálakerfið. Ég hef áður spurt hæstv. fjármálaráðherra út í það málefni en fengið fá svör.

Þegar fjármálakerfið hrundi á Íslandi 2008 var gagnrýnt mjög að ekki hafi verið til viðbragðsáætlun við slíku hruni. Síðan eru liðin tvö og hálft ár og við hljótum að gera ráð fyrir að ríkisstjórn sem búin er að sitja þetta lengi og tala mikið um ný vinnubrögð og breytta nálgun á málin sé búin að gera slíka viðbragðsáætlun. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra líklega í þriðja eða fjórða sinn hvort búið sé að vinna slíka viðbragðsáætlun. Ef svo er væri fróðlegt að vita hvenær hún verður kynnt Alþingi og alþingismönnum þannig að hægt sé að leggja mat á hana.

Ef ekki er búið að gera slíka áætlun hljótum við að spyrja okkur hvernig stendur á því, hvort við ætlum virkilega að sigla inn í nýtt fjármálakerfi, inn í framtíðina, með það í farteskinu að vera ekki búin að undirbúa okkur ef hið óvænta gerist. Við verðum að átta okkur á því að þótt enginn spái því geta hlutirnir endurtekið sig og sagan hefur oft endurtekið sig, því miður. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort búið sé að vinna viðbragðsáætlun af hálfu íslenska ríkisins við mögulegu fjármálahruni.