139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

rannsókn á stöðu heimilanna.

314. mál
[19:00]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað fyrir hv. efnahags- og skattanefnd, ég sit í þeirri nefnd en stýri henni ekki. Það væri kannski vert undir liðnum um störf þingsins að spyrja hv. formann nefndarinnar, Helga Hjörvar, hverju þetta sæti. Þessar upplýsingar eru allar til á tölvutæku formi og það er mjög fljótlegt að safna þeim saman undir kennitölum, dulrita kennitölurnar og safna upplýsingunum saman í einn grunn. Það er mjög fljótlegt.

Við fluttum breytingartillögu við afgreiðslu frumvarps um umboðsmann skuldara um að umsóknarferli yrði gert einfalt. Þessar upplýsingar liggja nefnilega allar fyrir. Ég flutti þá breytingartillögu sem gekk út á að menn kæmu bara með kennitöluna sína og skrifuðu undir heimild fyrir umboðsmann skuldara til að leita upplýsinga annars staðar.

Nú heyri ég að fólk borgar fé fyrir að fá upplýsingar, afrit af skattframtölum, afrit af þessu og afrit af hinu og er um leið að ónáða opinbera starfsmenn í öllu kerfinu. Þetta er kannski í takt við þá stefnu hæstv. ríkisstjórnar að flækja allt saman og gera öll mál þannig að þjóðfélagið hreinlega stoppi vegna flækju.

Menn gætu bara gefið upp kennitöluna sína og umboðsmaður skuldara sem hefur heimildir í þessum lögum mundi þá senda tölvupóst til ríkisskattstjóra og óska eftir þeim upplýsingum sem hann þarf. Hann mundi senda tölvupóst til lífeyrissjóða, þess vegna allra, og óska eftir þeim upplýsingum sem hann þarf. Þetta er hægt, kostar ekki neitt og er miklu hraðvirkara.