139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

sameining landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar.

[10:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þannig háttar til að í heilbrigðisnefnd er til umræðu frumvarp um sameiningu Lýðheilsustöðvar og landlæknisembættisins. Frumvarpið er þar enn þá til umræðu og ekki orðið að lögum. Engu að síður hefur það borist til fulltrúa í heilbrigðisnefnd að yfir standi ráðningar á starfsmönnum við stofnun sem ekki er til.

Það hlýtur að brjóta verulega í bága við góða stjórnsýslu. Það hlýtur líka vekja umhugsun og eftirtekt hvort stjórnsýslan hafi ekki undir nokkrum kringumstæðum lært af því sem fram kom í rannsóknarskýrslu Alþingis sem og í skýrslu þingnefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis. Það liggja fyrir athugasemdir frá framkvæmdastjóra Bandalags háskólamanna vegna þess að þessi stofnun er ekki til. Þar af leiðandi hafa engar stöður verið auglýstar, enginn forstjóri ráðinn, en engu að síður er verið að ræða við starfsmenn þeirra stofnana sem hugað er að að sameina með frumvarpi sem ekki er orðið að lögum og þeir spurðir þeirra spurninga hvort þeir hyggist ráða sig við nýja stofnun verði hún að lögum. Er hugsanlega verðandi forstjórum þeirrar stofnunar sem hugsanlega verður til gefinn vikufrestur til að svara hvort þeir ætli að þiggja starfið eður ei.

Það er gersamlega óásættanlegt vinnulag í sameiningarferli tveggja stofnana þrátt fyrir að hugmyndin að sameiningu komi frá þessum stofnunum. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra: Er honum kunnugt um þetta vinnulag innan fyrirhugaðrar stofnunar? Hvað hyggst hann þá gera? (Forseti hringir.) Ég bendi á að boðaður er heilbrigðisnefndarfundur í hádeginu væntanlega til að taka út áðurnefnt frumvarp og (Forseti hringir.) draga úr þeim skaða sem umræður innan þessarar fyrirhuguðu stofnunar hafa hugsanlega valdið ríkinu.