139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða heimilanna.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek ágætlega undir þá hugmynd sem hv. þingmaður setti fram að þinginu verði með reglubundnum hætti gerð grein fyrir framvindu mála að því er varðar stöðu mála og mun ég beita mér fyrir því í samráði við þingflokkana að kanna hvernig standa eigi að því og hve reglulega það skuli gert. Ég tel alveg sjálfsagt að verða við því enda er það áhugamál allra sem hér sitja að vel og farsællega verði staðið að framkvæmd þeirra tillagna sem orðið hefur sátt um. Ekki síst þurfum við að fylgja því vel eftir að greiðsluaðlögunin gangi vel fyrir sig. Hún hefur bjargað mjög mörgum, komið mjög mörgum í skjól sem ella hefðu lent með íbúðir sínar á uppboði þannig að ég tel sjálfsagt að verða við þessari ósk og mun þá í samráði við formenn þingflokkanna ræða hvernig því verður háttað með reglubundnum hætti.