139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

535. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta mál er flutt til að tryggja rétt íslenskra flugrekenda og þeirra sem falla undir Ísland hvað varðar að geta aflað sér gjaldfrjálsra losunarheimilda undir þeirri tilskipun sem tekur yfir viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir.

Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd tvær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem lúta að breytingu á XX. viðauka um umhverfismál og að fella báðar inn í samninginn. Þetta er annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB sem fellir flugstarfsemina undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildirnar. Hins vegar er þetta ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB sem er frá 8. júní 2009, en sú tilskipun felur í sér nánari útfærslu á því hvaða flugstarfsemi fellur undir kerfið og sömuleiðis hvaða flugstarfsemi er undanþegin.

Með fyrri tilskipun er flugstarfsemin sem sagt felld undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, en sú tilskipun fjallar m.a. um það hversu mikið beri að draga úr losun frá flugstarfsemi fram til ársloka 2020. Viðskiptakerfinu er ætlað að mynda hvata af hagrænum toga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kerfi hefur í reynd verið virkt innan Evrópusambandsins frá 2005 en EFTA-ríkin hafa verið virkir þátttakendur í því frá árinu 2008. Þar sem sú starfsemi á Íslandi sem hefði átt að falla innan kerfisins var sérstaklega undanþegin því hefur kerfið ekki enn verið sett á fót hér á landi. Þátttaka Íslands hefur því takmarkast við upplýsinga- og skýrsluskil til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Undir gildissvið fyrri tilskipunarinnar fellur allt flug innan sambandsins og líka flug til og frá sambandinu, þó með nokkrum undantekningum sem eru raktar sérstaklega í greinargerð með tillögunni. Málum er svo háttað að sérhver flugrekandi heyrir undir tiltekið ábyrgðarríki sem ber þá ábyrgð á að framfylgja þeim kröfum sem er að finna innan tilskipunarinnar. Gert er ráð fyrir að yfir 160 flugrekendur muni falla undir ábyrgð Íslands, þ.e. flugrekendur sem hafa íslenskt flugrekstrarleyfi og sömuleiðis flugrekendur utan EES sem millilenda hér á landi.

Efalítið kemur það sumum sem sitja hér og hlýða á mál mitt á óvart, eins og t.d. fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Kristjáni Möller, hvað þessi tala er há en hún á sér eftirfarandi skýringar:

Meginreglan samkvæmt þeirri tilskipun sem ég nefndi áðan er sú að ef flugrekstraraðili er skráður í löndum Evrópusambandsins er viðkomandi ríki ábyrgðarríki þess aðila. Sama regla mundi þá ná til EES-svæðisins. Ef aðili er hins vegar skráður í ríki utan EES mun sú regla gilda að ábyrgðarríki sé það ríki sem viðkomandi flýgur mest til, þá eru lendingar meðtaldar.

Vegna legu sinnar í Atlantshafinu er Ísland þess vegna ábyrgðarríki fyrir fjölda flugrekstraraðila sem millilenda hér á landi, jafnvel einungis til að taka bensín. Þannig verður Ísland í reynd það ríki sem er ábyrgt fyrir hlutfallslega mjög mörgum flugrekstraraðilum í samanburði við önnur ríki. Þess vegna er talan svona há, 160 flugrekendur eins og nefnt er í tillögunni, og byggir raunar á óformlegum og óbirtum lista framkvæmdastjórnar ESB. Flestir þessara flugrekstraraðila eru frá Bandaríkjunum og Kanada. Þegar afleiðingarnar fyrir Ísland eru skoðaðar eru þær tiltölulega jákvæðar að því er varðar t.d. tekjur fyrir þær losunarheimildir sem um síðir verða boðnar upp.

Heildarfjöldi losunarheimilda vegna flugstarfsemi á hverju tímabili tilskipunarinnar er ákveðinn á grundvelli upplýsinga um losun aðildarríkja á viðmiðunarárunum sem eru 2004–2006. Stærstum hluta þessara heimilda, eða 85%, ber að úthluta endurgjaldslaust til flugrekenda. Þeim flugrekendum sem notast við sparneytnustu tæknina er umbunað þar sem þeim er úthlutað fleiri losunarheimildum. Það er hinn hagræni hvati sem ég gat áðan um að fælist í tilskipuninni. Afgangurinn, þ.e. 15% losunarheimilda, verður boðinn upp á EES-svæðinu. Í tilskipun er sömuleiðis kveðið á um að settur verði á stofn tiltekinn varasjóður losunarheimilda. Hann er ætlaður fyrir nýja flugrekendur eða þá sem hefja starfsemi eftir að tímabilið hefst eða þá flugrekendur sem vegna aukinna umsvifa vegna þess að þeim gengur vel auka losun að viðmiðunartímabilinu loknu.

Í síðari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sem er undir í þessari tillögu er að finna nánari útfærslu á því hvaða flugstarfsemi fellur undir kerfið og hvaða flugstarfsemi er undanþegin. Það er sömuleiðis vel rakið í greinargerðinni.

Það er rétt að greina frá því að yfirvöld á sviði umhverfismála hafa kynnt innlendum flugrekstrarfyrirtækjum efni þessarar tilskipunar Evrópusambandsins og sömuleiðis ítarlega þær skyldur sem henni fylgja. Því er hægt að segja að flestir íslenskir flugrekendur hafi tekið þátt í undirbúningi vegna þessarar útvíkkunar kerfisins til flugstarfsemi þó að reglur þar um séu ekki enn komnar í íslensk lög.

Eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu kallar innleiðing umræddra gerða á lagabreytingar hér á landi. Hæstv. umhverfisráðherra fyrirhugar því að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum sem um þetta fjalla og eru lög nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er það svo, frú forseti, að vegna tafa sem hafa orðið á upptöku þeirra í EES-samninginn og vegna afar skammra tímafresta sem er kveðið á um í tilskipununum er nauðsynlegt að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðanna í samninginn geti tekið gildi þegar í stað, þ.e. án þess að við förum hina hefðbundnu leið sem jafnan er farin þegar innleiðing kallar á lagabreytingu og settur er stjórnskipulegur fyrirvari af hálfu einstakra EES/EFTA-ríkja. Þess vegna er núna lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni fyrir fram að staðfesta þessar tvær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem kveðið verður á um upptöku gerðanna í samningnum. Rétt er að leggja áherslu á það, frú forseti, að drög að þessum ákvörðunum fylgja þingsályktunartillögunni. Það er því alveg ljóst að hverju menn ganga.

Það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í þeirri tillögu sem ég mæli fyrir, þ.e. fyrirframsamþykki Alþingis til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu nefndarinnar sem kalla á lagabreytingu, er óvenjulegt en ekki einsdæmi. Málið er, eins og ég gat um í upphafsorðum ræðu minnar, borið undir Alþingi með þessum hætti vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru fyrir hendi og ég hef lýst skilmerkilega og gera það að verkum að brýnt er fyrir hagsmuni flugstarfsemi á Íslandi að ákvarðanirnar öðlist gildi fyrir lok næsta mánaðar.

Tilskipun 2008/101/EB kveður á um að tímafrestir flugrekenda til að sækja sér losunarheimildir án endurgjalds og til skila á staðfestum gögnum um losun séu til 31. mars næstkomandi. Innlendir flugrekendur og erlendir aðilar sem annast hafa flug til og frá Íslandi hafa þess vegna einungis frest til að skila inn slíkum umsóknum og gögnum þangað til. Sömu tímamörk eiga við um alla sem stunda flugrekstur í eða til annarra EES-ríkja. Þessi háttur er hafður á til að verja hagsmuni og tryggja rétt íslenskra fyrirtækja. Ég get þess líka að nákvæmlega sama staða er uppi í Noregi. Norsk stjórnvöld hafa þess vegna ákveðið að fara nákvæmlega sömu leið og ég legg hér til, þ.e. að afla samþykkis fyrir fram fyrir þeim ákvörðunum sem liggja fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni.

Vegna þess, frú forseti, að þetta er frábrugðið þeirri hefð sem við höfum fylgt vil ég reifa aðferðina örlítið ítarlegar. Það má velta því fyrir sér hvort þetta samræmist þeim reglum sem Alþingi hefur sett sér um mál af þessu tagi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirframsamþykki Alþingis til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefnarinnar samræmist í reynd prýðilega þeim reglum sem Alþingi hefur sett um þinglega meðferð EES-mála. Þar er kveðið á um að samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu þar að lútandi þurfi til staðfestingar ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hafi verið gerður við. Jafnframt er gert ráð fyrir að slík þingsályktunartillaga komi fram á undan eða samtímis lagafrumvarpi sem sett er fram til að innleiða viðkomandi gerð.

Ég legg áherslu á það, frú forseti, að í þessu tilviki er í reynd gengið enn lengra hvað varðar samráð við Alþingi að því leyti að samþykkis þess er nú leitað áður en ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er tekin. Þetta er ekki fordæmalaust. Ég rifja það upp fyrir þeim sem setið hafa hér nokkuð lengi og kannski verið jafnlengi á gjöfum á þinginu og ég að fyrir rúmum 10 árum, 1997 ef ég man rétt, voru reglur um framleiðslu á fiskafurðum teknar upp í EES-samninginn með fyrirframsamþykki. Í reynd er því byggt á fordæmi þó að aðrar reglur hafi verið settar af hinu háa Alþingi og skýringin liggur í þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.