139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[15:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það voru allmikil vonbrigði að ekki náðist að gera breytingar á þingsköpunum og breyta nefndafyrirkomulaginu um síðustu áramót eins og áformað hafði verið. Það er skiljanlegt að það geti verið erfitt að riðla nefndaskipan Alþingis á miðju þingi. Það eru röksemdir sem er rétt að hlusta á en þarna er um að ræða nýtt verkefni sem verið er að fela þinginu og ég hefði talið mikilvægt að það væri líka farið í fyrstu skrefin með nefndinni sem í framhaldinu á að sinna þessu. Það er ekki alveg heppilegt að láta aðra nefnd en þá sem á að hafa þetta verkefni með höndum í framtíðinni fá það á fyrstu stigum. Ég áskil mér allan rétt til þess í mínum þingflokki og hér í þessum sal að reyna að leita samstöðu um að hægt verði að breyta fyrirkomulagi þingnefndanna þannig að þessi nefnd verði sett á laggirnar þótt önnur breyting á nefndaskipan og þingsköpum bíði.