139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[16:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en verð að hryggja hann með því að segja honum að hann er sammála mér. Ég tók undir útleggingar hv. þm. Birgis Ármannssonar þannig að hv. þingmaður kemst ekki hjá því að vera sammála mér í þessu. Það kom fram í umræðunni, m.a. hjá títtnefndum hv. þm. Birgi Ármannssyni, að menn eru faktískt með tvennt undir; annars vegar það frumvarp sem hefur ekki litið dagsins ljós um breytt þingsköp, og þá sérstaka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og hins vegar þetta frumvarp um rannsóknarnefndirnar. Þá væri fróðlegt að heyra, af því að ég held að það væri gott að fá hana inn í umræðuna, skoðun hv. þm. Atla Gíslasonar á því hvort málum væri þá eins fyrir komið. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi miðað við það frumvarp til þingskapalaga eins og það liggur fyrir núna, í það minnsta hef ég ekki heyrt þá túlkun áður, en er hann sammála því að þannig sé málum eins fyrir komið, þ.e. að frumkvæðið og undirbúningsvinna að rannsókn fari alla jafna fram hjá þingnefndum eða komi frá hv. þingmönnum en sé ekki einskorðuð við stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina?