139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010, um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn um almenna þjónustu og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB.

Málið felur í sér ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðnum. Í umræddri ákvörðun eru settar reglur um notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipunina svokölluðu. Með rafrænum undirskriftum er átt við gögn í rafrænu formi sem fylgja eða tengjast rökrænt öðrum rafrænum gögnum og eru notuð til að sannprófa frá hverjum þau gögn stafa.

Samkvæmt þessari ákvörðun er þeim sem veitir leyfi heimilt að krefjast þess í ákveðnum tilvikum að sá sem veitir þjónustu noti rafræna undirskrift til að auðkenna sig þegar hann sækir um leyfi til að veita þessa tilteknu þjónustu í gegnum upplýsinga- og þjónustuveiturnar sem kveðið er á um í þjónustutilskipuninni.

Þá er jafnframt kveðið á um að aðildarríkin skuli setja upp, viðhalda og birta svokallaða traustlista þar sem fram eiga að koma upplýsingar um vottunaraðilana sem gefa út þessar rafrænu undirskriftir.

Þessi innleiðing á þeirri ákvörðun sem ég hef reifað kallar á breytingu á lögum nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir, sem felst í því að umgjörð um fyrrgreinda traustlista verður lögfest. Gert er ráð fyrir því að Neytendastofa annist uppsetningu og viðhald listans. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mun svo í fyllingu tímans leggja fram frumvarp til breytinga á þessum lögum, nr. 28/2001, og hann fyrirhugar að gera það á yfirstandandi þingi.

Þessi ákvörðun EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Þess vegna var hún á sínum tíma tekin með stjórnskipulegum fyrirvara, og eins og hv. þingmenn vita hefur þingið sett ákveðnar reglur sem fela það í sér að óskað er samþykkis Alþingis til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara með sérstakri þingsályktunartillögu þótt hægt sé að gera það í viðkomandi lögum. Þess vegna flyt ég, í samræmi við þær reglur sem þingið hefur sett, þessa þingsályktunartillögu þannig að hægt sé að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu slotar verði tillagan send til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.