139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðuna og lýsingu á þessari tillögu til þingsályktunar. Ég held að hv. Alþingi þurfi að taka svona tillögur frá Evrópusambandinu miklu alvarlegar og vinna þær miklu nánar en gert hefur verið hingað til.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi þingsályktunartillaga sé að einhverju leyti afleiðing af hruninu sem varð ekki bara á Íslandi, þó að hér hafi orðið verulega mikið hrun, heldur um alla Evrópu, af því að þetta er sett á laggirnar 2009. Er þetta að einhverju leyti afleiðing af því?

Þessi þingsályktunartillaga og staðfesting ákvörðunar EES-nefndarinnar byggir á því að búa til eins konar rafrænt vegabréf fyrir fyrirtæki sem gæti að sjálfsögðu líka verið útvíkkað yfir á einstaklinga sem getur haft mjög mikil áhrif ef vel er staðið að því, t.d. á netinu þar sem nafnleysið hefur vaðið yfir allt, sem og ábyrgðarleysið. Þar gætu menn unnið og verslað með svona rafrænu vegabréfi og eins með rafrænum kosningum, það hefur ekki verið talað um að þær gætu komið inn í líka, menn gætu þá kosið rafrænt ef þeir hefðu rafrænt vegabréf. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði.

Hins vegar gagnrýni ég það sem hér hefur komið fram, að löggjafinn og framkvæmdarvaldið séu með ákall til framkvæmdarvaldsins um að semja lög. Ég held að viðskiptanefnd ætti sjálf að drífa í að semja það lagafrumvarp sem þarf en ekki alltaf vera með ákall til efnahags- og viðskiptaráðherra sem hefur alveg nóg að gera.