139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 930, um skipun stjórnlagaráðs. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis, að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis, að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Bjóða skal þeim sæti í ráðinu sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010, sbr. auglýsingu nr. 929/2010, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni, sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn hefur birt, en þó þannig að kynjahlutföll raskist ekki.“

Frú forseti. Það sem á eftir kemur í tillögugreininni í átta tölusettum liðum er þingmönnum mjög vel kunnugt. Þar eru talin upp þau atriði sem stjórnlagaráð skuli taka sérstaklega til umfjöllunar í átta liðum og það er samsvarandi því sem er rakið í 3. gr. laga nr. 90/2010

Þá er einnig tekið fram að stjórnlagaráð geti ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en þar er getið og að stjórnlagaráð skili tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga fyrir lok júní 2011.

Frú forseti. Þá er komið að töluvert mikilli breytingu frá því sem áður hafði verið hugsað varðandi stjórnlagaþing sem menn hafa hér rætt.

Hér segir:

„Um skipulag og starfshætti stjórnlagaráðs fer eftir starfsreglum sem stjórnlagaráð setur og forseti Alþingis staðfestir.“

Eins og menn muna hafði verið gerð viðamikil umgjörð, býsna stíf, um það hvernig stjórnlagaþingið ætti að starfa. En með því að við erum hér að tala um stjórnlagaráð þykir okkur flutningsmönnum sýnt að það sé óþarft og að ráðið geti sjálft sett sér starfsreglur, þó þannig að forseti Alþingis staðfesti þær.

Annað sem ég vil vekja athygli hv. þingmanna á, og hefur verið nefnt hér áður, er ákvæði um að kostnaður vegna stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að þetta orðalag, sem er alsiða og kemur iðulega fyrir, vísar til þess að það sé gert með sérstökum lögum eða fjáraukalögum. Það er ekki gert með þingsályktun.

Frú forseti. Ég ætla að hlaupa aðeins á greinargerð sem fylgir þessu frumvarpi en vísa einnig til fylgiskjals sem fylgir tillögunni á bls. 3 sem er álit meiri hluta samráðshóps um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings. Undir það álit skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, Ágúst Geir Ágústsson og hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Valgerður Bjarnadóttir.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er minnt á að með samþykkt laga um stjórnlagaþing náðist mjög breið samstaða á Alþingi um að unnið yrði að endurskoðun stjórnarskrárinnar með gagnsæjum og lýðræðislegum hætti með það að markmiði að unnt væri að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili.

Með samþykkt þessara laga náðist breið sátt um tiltekið endurskoðunarferli. Það skyldi haldinn þjóðfundur, það skyldi kjörin stjórnlaganefnd í Alþingi og síðan yrði kosið stjórnlagaþing beinni kosningu sem átti að fjalla um tillögur stjórnlaganefndar og þar með þjóðfundar. Alþingi skyldi síðan taka við og afgreiða stjórnarskrárfrumvarp á tveimur þingum með almennum kosningum á milli í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Frú forseti. Áður en ný stjórnarskrá tæki gildi yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögurnar. Ekki var í lagatextanum og þeirri sátt sem náðist á Alþingi tiltekið sérstaklega hvenær sú þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram en gert var ráð fyrir að stjórnlagaþingið hefði tillögurétt í þeim efnum. Í þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér, er einnig gert ráð fyrir að stjórnlagaráð setji fram tillögu um þetta efni, sbr. 6. tölulið í 2. mgr.

Þar segir, með leyfi forseta, að stjórnlagaráð taki sérstaklega til umfjöllunar eftirfarandi þætti og það er 6. töluliður:

„Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.“

Þjóðfundur var haldinn í byrjun nóvember 2010 og þótti takast vel. Stjórnlaganefnd hefur síðan unnið úr því sem þar kom fram og er skýrsla hennar tilbúin til afhendingar. Kosning til stjórnlagaþings fór fram 27. nóvember sl. og með ákvörðun 25. janúar 2011 ógilti Hæstiréttur Íslands þá kosningu sem fór fram. Sú ákvörðun er bindandi og endanleg. Ekki kom því til þess að stjórnlagaþing yrði sett af hálfu forseta Alþingis 15. febrúar eins og til stóð.

Í kjölfar þessarar ákvörðunar Hæstaréttar ákvað forsætisráðherra, í kjölfar samráðs við alla þingflokka, að setja á fót samráðshóp til að greina stöðuna og meta hvaða leið væri vænlegust til þess að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána á þessu kjörtímabili. Í ljósi þess, frú forseti, að kosning til stjórnlagaþings er ekki stjórnarskrárbundin og stjórnlagaþingið fyrst og fremst ráðgefandi er ljóst að Alþingi getur, þrátt fyrir ákvörðun Hæstaréttar, tekið ákvörðun um það hvort kosið verði að nýju eða önnur leið farin til að halda áfram endurskoðunarferlinu. Samráðshópurinn, sem ég hef hér nefnt, hvers meirihlutaálit fylgir tillögu þessari til þingsályktunar, taldi að nokkrar leiðir kæmu til álita til að bregðast við þeirri óvæntu stöðu sem upp kom.

Við vorum sammála um að sú leið sem yrði fyrir valinu yrði að uppfylla tvö grundvallarskilyrði. Annars vegar að ákvörðun Hæstaréttar væri á engan hátt dregin í efa eða vefengd og hins vegar yrði leiðin að vera vænleg til þess að ná því markmiði að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar í samræmi við það endurskoðunarferli sem sátt hefur náðst um á þessu kjörtímabili. Eftir að hafa vegið og metið kosti ólíkra leiða var það niðurstaða meiri hluta samráðshópsins að vænlegast sé, með hliðsjón af öllum aðstæðum, að Alþingi komi með ákveðnari hætti inn í endurskoðunarferlið þegar á þessu stigi með skipan stjórnlagaráðs, eins og ég hef hér gert grein fyrir, og Alþingi leysi þannig þann hnút sem endurskoðunarferlið er komið í. Það er mat meiri hluta samráðshópsins að með þessu sé niðurstaða og ákvörðun Hæstaréttar ekki með nokkrum hætti vefengd enda sé það fyrst og fremst skylda Alþingis og stjórnvalda að virða ákvörðun Hæstaréttar með því að gæta þess í framtíðinni að þeir annmarkar sem upp komu við framkvæmd þessara kosninga endurtaki sig ekki við framkvæmd kosninga í framtíðinni. Ákvörðun um að fara þessa leið er byggð á því mati að þótt umboð þeirra sem hlutu kosningu til setu á stjórnlagaþingi sé ekki lengur fyrir hendi og kjörbréf þeirra hafi verið afturkölluð verði ekki dregið í efa að þeir njóti ákveðins trausts kjósenda til þess að taka þátt í því verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Þessi leið er byggð á því að líklegt sé að mikilvægt innlegg komi frá þessum hópi inn í endurskoðunarferlið og það muni nýtast Alþingi við mótun nýrrar og vandaðrar stjórnarskrár.

Frú forseti. Þingið sem nú situr hefur að mínu mati skuldbundið sig til þess að tryggja að ný tillaga að stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu við næstu almennu kosningar. Við höfum komið okkur saman um tiltekið ferli og ég minni á að það var aðeins eitt mótatkvæði þegar lög nr. 90/2010 um stjórnlagaþing voru samþykkt. Þannig náðist sátt um tiltekið ferli sem er að nokkru leyti óvenjulegt og öðruvísi en verið hefur við undirbúning að breytingu á stjórnarskránni hingað til og byggir á aðkomu annarra en alþingismanna og sérfræðinga í stjórnskipunarrétti. Þar er ég að vísa til þess að haldinn var þúsund manna þjóðfundur og úrvinnslu þess sem þar kom fram í sérstakri þingkjörinni stjórnlaganefnd og loks var stjórnlagaþing kosið beinni kosningu.

Margir telja mikilvægt að frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð, áður stjórnlagaþing, skilar til Alþingis eigi fyrst að leggja fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla væri að sjálfsögðu aðeins ráðgefandi þar sem óbreytt stjórnarskrá leyfir ekki annað. Þetta var rætt ítarlega síðasta haust, í allsherjarnefnd og aftur í aðdraganda þessa máls sem við nú ræðum. Í þessu atriði vil ég vísa til þskj. 1354 á 138. þingi, sem er framhaldsnefndarálit allsherjarnefndar þar sem lýst er fjórum leiðum til að fara með frumvarp að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil vekja athygli á því sem um þetta er fjallað í greinargerð þingsályktunartillögunnar, og ég las áðan.

Eins og við vitum hér, frú forseti, hafa verið uppi ólíkar túlkanir á þessu orðalagi í lögunum, sem nú er tekið óbreytt upp í tillögugreinina hér, og eins um orðalagið í áliti allsherjarnefndar. Sumir hafa talið augljóst að frumvarp um stjórnarskrá skyldi fara beint í þjóðaratkvæði áður en það færi til Alþingis, aðrir hafa talið það fráleita túlkun. Meiri hluti samráðshópsins tók þá ákvörðun að hrófla ekki við þessu orðalagi frá því sem sátt hafði náðst um, fara ekki að túlka það á annan hvorn veginn heldur halda sig við þá niðurstöðu sem fékkst síðasta haust með einu mótatkvæði þó. Þetta atriði verður væntanlega rætt í allsherjarnefnd á milli umræðna enda er það rétti vettvangurinn, þaðan kom orðalagið í upphafi og þar á að skýra það.

Ég vil þó aðeins segja fyrir sjálfa mig að ég tel að svo miklum peningum, 250–300 millj. kr., sé betur varið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu að stjórnarskrá áður en Alþingi fjallar um hana heldur en að endurtaka kosningu um ráðgefandi stjórnlagaþing með óbreyttum hætti nú í sumar eða þá með einhverjum allt öðrum hætti eftir eitt eða tvö ár.

Frú forseti. Málið er í höndum Alþingis. Verkefnið er brýnt, að vinna að breytingu stjórnarskrárinnar þannig að unnt verði að ljúka heildarendurskoðun hennar á þessu kjörtímabili. Við megum ekki týna okkur í umræðum um formið á næstu mánuðum. Á síðasta ári tók það Alþingi átta mánuði. Við höfum tillögur þjóðfundar, við fáum tillögur stjórnlaganefndar, við höfum hóp valinkunnra einstaklinga sem naut þess trausts í samfélaginu að hljóta kosningu til að sinna næsta skrefi í ferlinu og við höfum tækifæri hér og nú til þess að tryggja að innan tíðar, jafnvel strax í sumar, fáum við frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Málið er í höndum Alþingis og það er ekkert, frú forseti, sem bindur hendur þingsins í þessum efnum. Hér var aðeins um að ræða ráðgefandi þing, ekki stjórnarskrárbundna kosningu. Þingið getur því brugðist við með þeim hætti sem best þykir og breiðust sátt næst um með lögum eða með þingsályktun svo fremi sem það fari ekki í bága við stjórnarskrána. Aðrar takmarkanir gilda ekki um störf þingsins.

Það er vissulega rétt, frú forseti, að gæta að virðingu Hæstaréttar, en það er líka rétt að gæta að virðingu Alþingis. Við skulum sýna Alþingi sjálfu virðingu og við skulum sýna því fólki sem bauð sig fram til starfans, sem Alþingi auglýsti síðasta haust, virðingu. Sá hópur sem kosningu hlaut og bauð sig fram ber enga ábyrgð á þeim ágöllum sem voru á framkvæmd kosninganna að mati Hæstaréttar. Það er ekkert sem hefur skaðað trúverðugleika þeirra sem einstaklinga eða hópsins í heild. Það eru engar grunsemdir uppi um að brögð hafi verið í tafli í kosningunni eða að hún hafi ekki skilað réttri tölulegri niðurstöðu.

Frú forseti. Þetta mál er í höndum Alþingis. Og ég ítreka að það er ekkert sem getur bundið hendur Alþingis í þeim efnum. Alþingi hefur heimildir til að skipa hvern þann sem það kýs til tiltekinna verka, og þá líka umræddan hóp til að taka við tillögum stjórnlaganefndar og vinna frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir lok júnímánaðar nk.

Ég vil skora á hv. þingmenn að styðja þetta verklag. Þannig stöndum við best við þau fyrirheit sem við höfum gefið þjóðinni um að leggja fyrir hana tillögu að nýrri stjórnarskrá. Málið er í höndum þingsins, það er í höndum okkar alþingismanna.

Ég legg til, frú forseti, að þingsályktunartillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar.