139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í öllu þessu ferli er ákveðin rökleysa. Hún felst í því að menn hefðu átt að breyta 79. gr. fyrst. Það vill svo til að á Íslandi er til stjórnlagaþing, það heitir Alþingi. Hv. Alþingi er stjórnlagaþing. Það gæti breytt 79. gr. strax eða við næstu kosningar þannig að hægt væri að bera hina nýju stjórnarskrá sem á að vera stjórnarskrá þjóðarinnar undir þjóðina og hún gæti greitt um hana atkvæði. En með því ferli sem hér er lagt til mun þjóðin aldrei nokkurn tímann greiða atkvæði um þá stjórnarskrá sem er verið að setja henni.