139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. ræðumanns Sigurðar Inga Jóhannssonar get ég ekki þakkað honum fyrir ræðuna, mér þótti niðurlagið ekki par smekklegt.

Ég vil nýta þetta andsvar til að fara yfir það hvaða valkostum stjórnvöld og Alþingi stóðu frammi fyrir eftir að kosningarnar höfðu verið dæmdar ógildar — ekki dæmdar ógildar, það er rangt að taka þannig til orða, það var ákvörðun Hæstaréttar án þess að skilyrði almennra laga um kosningar væru uppfyllt, þ.e. það var engin leiðbeining í því hvernig bregðast ætti við og ekki var heldur bent á að þessir ágallar hefðu haft áhrif á niðurstöðuna. En þetta tvennt er forsenda þess þegar verið er að dæma ógildar kosningar. Það vantaði í þetta.

Að öðru leyti held ég að ekki sé hægt að fullyrða að lagasetningin hafi verið gölluð, það var framkvæmdin fyrst og fremst. Þannig að ég vil mótmæla því að menn hafi verið að kasta til þess höndunum að undirbúa þetta stjórnlagaþing hér á Alþingi. Það tók okkur átta mánuði að fara í gegnum þetta mál og komast að tiltekinni niðurstöðu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Heldur hann að það sé trúverðugt gagnvart þjóðinni, gagnvart kjósendum Framsóknarflokksins, sem barðist fyrstur flokka fyrir því að stjórnlagaþing yrði sett á laggirnar, að við tökum átta mánuði til viðbótar í að hugleiða hvernig við ættum að koma því á?