139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvert hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er að fara með því að ég hafi verið að snúa út úr. Ég tók aftur á móti þetta dæmi um það sem mér finnst og í máli mínu fór ég yfir það að hér værum við kannski að reyna að flýta okkur til að komast fram hjá alls konar keldum í staðinn fyrir að vanda okkur og finna réttu leiðina. Það hefði kannski verið þannig að það sem hefði verið gagnrýnt á liðnum árum og jafnvel áratugum í stjórnsýslunni, bæði formleysi og hálfgert stefnuleysi og menn hafi ekki vandað sig nóg, hafi leitt til þess að við værum oft að breyta lögum sem væru jafnvel innan við eins árs, eins og t.d. þessum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu sem mig minnir að hafi verið samþykkt í júní/júlí í fyrra eða síðastliðið sumar ef ég man rétt. Ég tók það bara sem dæmi, þar sem hv. þingmaður nefndi það að sú vinna væri akkúrat í gangi, að við ættum kannski að vanda okkur í stað þess að reyna að smella þessu stjórnlagaráði upp til þess að leysa einhverja pólitíska leið bara einn, tveir og þrír.

Ég er glaður yfir því sem hv. þingmaður nefndi að hér séu bæði þingmenn og embættismenn farnir að lúslesa lög til að reyna að tryggja að í þeim leynist ekki gallar. Ég held að það sé einmitt einn af þeim lærdómum sem við eigum að draga af dómi Hæstaréttar, að vanda okkur betur. Þess vegna væri það sérkennilegt — því tók ég þetta sem dæmi — að við værum á sama tíma að reyna að hrúga upp þessu stjórnlagaráði. Margir valinkunnir, háttsettir og löglærðir menn hafa bent á að verið sé að sniðganga Hæstarétt. Ég held að það sé varasöm leið.