139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

hækkanir verðtryggðra lána.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er spurning af svipuðum meiði og spurning hv. þm. Bjarna Ben. Auðvitað kemur sú kreppa sem við höfum verið að ganga í gegnum og þeir erfiðleikar og það aðhald sem við höfum þurft að glíma við í ríkissjóði óhjákvæmilega niður á heimilunum. En eins og hv. þingmaður veit hefur ríkisstjórnin þó unnið mjög að því í fjárlagagerð sinni, bæði að því er varðar útgjöld og skatta, að hlífa lægst launuðu hópunum, fólki með lágar og meðaltekjur. Það hefur sýnt sig í lækkandi skattbyrði hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Skyldi þá hv. þingmaður bera saman skattbyrðina eins og hún var þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu á árum áður? Þá bitnuðu skattarnir einkum á fólki með lágar tekjur þar sem hálaunahópunum var hlíft. Um það eru til lærðar greinargerðir (Gripið fram í.) og hv. þingmaður ætti að kynna sér þær.

Hv. þingmaður sér það líka ef hann skoðar málið af sanngirni að reynt hefur verið að hlífa velferðarkerfinu eins og kostur er bæði að því er varðar menntakerfið og félagslega kerfið. Ekki er þó tími til að fara í gegnum það hér. Farið hefur verið miklu vægar í niðurskurð þar. Af því að þingmaðurinn talar um miklar skattahækkanir spyr ég hann hvort hann vilji frekar fara í frekari niðurskurð á ríkisútgjöldum og lækka þar með skattana — við höfum farið í ýmsar aðhaldsaðgerðir eins og þingmaðurinn veit — og skilja þá eftir meiri halla á ríkissjóði. Hvað mundi það þýða fyrir efnahagsmálin? Ég bið þingmanninn að hafa í huga hvaða árangur hefur náðst í efnahagsmálum að því er varðar lækkun á vöxtum og ekki síst á verðbólgu sem skilar sér sannarlega fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.