139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

skólatannlækningar.

505. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp sem faðir og þingmaður. Nú er áratugur liðinn frá því skólatannlækningar voru lagðar niður á Íslandi. Allar rannsóknir virðast benda til þess að tannheilsu barna á Íslandi hafi hrakað mjög. Menn greinir reyndar á um það hversu mikið henni hefur hrakað en allar rannsóknir benda til þess að tannheilsu hafi vissulega og klárlega hrakað.

Ástæðan er, að því er mönnum sýnist, einföld. Eftirlit í skólum landsins hefur verið lagt niður, hið opinbera eftirlit, og skólatannlækningar eru að engu orðnar. Þetta er miður að mati þess er hér stendur og mun fleiri í landinu. Það er í raun með ólíkindum að þessi hluti líkamans, sá eini er lýtur að tönnum og tannvernd, skuli vera tekinn út fyrir aðra heilsugæslu og látinn í hendur markaðsöflum, getur maður sagt, en ríkið taki að sér alla aðra heilsugæslu en þá er lýtur að tannvernd. Þetta er með hreinum ólíkindum. Niðurstaðan er fengin: Eftir áratug án skólatannlækninga hefur tannheilsu barna á Íslandi hrakað svo mjög að eftir því er tekið í nágrannalöndum okkur.

Frú forseti. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra nokkurra spurninga af þessu tilefni:

1. Telur ráðherra koma til greina að hefja skólatannlækningar að nýju á Íslandi?

2. Liggja fyrir rannsóknir á því hversu tannheilsu skólabarna hefur hrakað frá því að skólatannlækningar voru aflagðar?

3. Hefur verið gerð kostnaðargreining á því að hefja skólatannlækningar að nýju?

4. Hvernig er þessum málum almennt háttað annars staðar á Norðurlöndunum?

Ég vænti þess að fá góð svör við þessum spurningum mínum, sem brenna mjög á fjölskyldum í landinu, frá hæstv. velferðarráðherra.