139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

skólatannlækningar.

505. mál
[16:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda Sigmundi Erni Rúnarssyni að það er áhyggjuefni hve tannheilsu barna hrakar á Íslandi, að það séu tvöfalt fleiri skemmdir hjá 12 ára börnum hjá okkur en í Svíþjóð. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Sú er hér stendur beitti sér fyrir því á sínum tíma að teknar yrðu upp forvarnaskoðanir í ákveðnum árgöngum en það þarf að gera meira. Það er gríðarlegt áhyggjuefni að tannlæknar eru ekki á hefðbundnum samningum eins og sérfræðilæknar, þ.e. að þeir ákveði sína gjaldskrá en ríkið ákveður síðan sjálft hvað það vill greiða mikið af gjaldskránni einhliða. Viðmiðun ríkisins hefur því sigið aftur úr, þ.e. ríkið borgar talsvert minna en það sem tannlæknarnir taka fyrir sína vinnu. Þetta er áhyggjuefni og leiðir hugann að því að bráðlega eru allir sérfræðilæknasamningar lausir. Ég vona að ekki fari svo að við lendum í sama kerfinu með alla sérfræðilækna, það má ekki verða. Það er gríðarlega mikilvægt að samningar takist við sérfræðilækna nú á næstu vikum.