139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling iðn- og tæknináms.

521. mál
[18:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það ber að fagna þessari líflegu umræðu um iðn- og tækninám og ég er sérlega ánægður með svar hæstv. menntamálaráðherra sem er greinilega vel að sér í þessum málum og hefur kynnt sér þau í þaula og ætlar að leggja áherslu á þau. Ég hvet ráðherra mjög til dáða í þessum efnum því skýrslur benda til að það verði ekki síst í þessum geira sem skortur á vel menntuðu fólki verður mikill á komandi árum. Við þurfum því að grípa til þeirra ráðstafana sem hæstv. ráðherra taldi upp áðan.

Það er í sjálfu sér afskaplega leiðinlegt að horfa til þeirrar stöðu sem er uppi í samfélaginu í dag þar sem allt of margir Íslendingar eru á atvinnuleysisbótum sakir þess að litla vinnu er að hafa en á sama tíma gæti þetta fólk verið að svara kalli iðn- og tæknigeira varðandi aukna menntunarþörf í greininni. Hér þarf að samræma hluti og greiða þessu fólki leið til menntunar. Það eru ekki síst ungir karlmenn sem hafa misst vinnu eða hafa fallið frá námi eins og tölur vitna um. Ég held að við eigum að hugsa til þessa hóps ungra karlmanna sem að hlutfallstölu eru hvað minnst menntaðir hér á Íslandi og gætu sótt í þetta nám ef vegurinn að því yrði gerður þeim auðveldari. Hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í (Forseti hringir.) þessum efnum því að skorturinn verður ella viðvarandi og þá verður endurreisnin ekki jafnhröð og góð og við viljum.