139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling iðn- og tæknináms.

521. mál
[18:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka bæði hv. fyrirspyrjanda og þeim hv. þingmönnum sem hér tjáðu sig.

Ég vil nefna framhaldsfræðsluna og lög um hana sem voru samþykkt í fyrra. Þar er eitt af lykilatriðum þróun raunfærnimatsins sem skiptir miklu máli fyrir iðn- og tæknimenntun. Þar hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á undanförnum árum haft forgöngu um að þróa viðmið og aðferðir til að meta þá þekkingu, leikni og hæfni sem fólk hefur aflað sér í því sem við getum kallað „óformlegt nám“, þeirra sem hafa unnið á vettvangi og fengið það metið. Fjöldi fólks hefur þegar fengið slíkt mat og margir lokið sveinsprófi eða öðru skilgreindu starfsnámi en það er mjög brýnt að útvega fjármagn til að unnt sé að gefa öllum þeim sem þess óska kost á að ljúka skilgreindu iðn- og starfsnámi í framhaldi af raunfærnimati. Ég held að þetta skipti máli, sérstaklega til að gefa þeim sem núna hafa jafnvel fallið brott úr námi, af því að þeir luku ekki vinnustaðasamningi en hafa verið að vinna við fagið, tækifæri á að ljúka náminu með skilgreindum hætti. Það er brýnt.

Ég vil nefna, vegna þess sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi með Tækniskólann, að ekki liggur fyrir úttekt á fyrirkomulaginu sem þar var tekið upp. Væntanlega ætti hún að liggja fyrir á næsta ári, mig minnir að verkefnið standi til 2013. Þar kemur auðvitað atvinnulífið í mjög ríkum mæli að rekstri skólans en eigi að síður erum við að fást við sömu vandkvæði þar og annars staðar sem er að nemendur komast ekki á samning og annað slíkt.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það skiptir máli að við lítum til þessa og viðhorfin skipta auðvitað líka máli, hvernig um þetta er talað. Það er áhyggjuefni að nemendur velja sér iðulega ekki iðnnám sem fyrsta kost. Það er ákveðið bóknámsrek í kerfinu, það virðist enn vera viðurkenndari leið (Forseti hringir.) ef marka má almenn viðhorf samfélagsins. Það skiptir máli að við vinnum í því. Ég veit ekki hvort við gerum það með því að tala hér, stjórnmálamennirnir, (Forseti hringir.) sem erum sammála um þetta mál, en það skiptir máli til að mynda í kynningum fyrir nemendur sem eru að fara að hefja nám í framhaldsskólum.