139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og velti auðvitað fyrir mér í hvaða gjaldmiðli hv. þingmaður hafði hugsað sér hið nýja skattþrep. Allt er best í hófi, líka skattar. Ofurskattar eru óskynsamlegir vegna þess að þeir skila litlum tekjum, (VigH: Rétt.) þeir stuðla að auknum skattsvikum og senda skilaboð til fyrirtækja og fjárfesta um að hingað sé ekki gott að leita. Aldrei höfum við þurft á því að halda eins og nú að laða til okkar fyrirtæki og fjárfesta til að skapa vinnu og verðmæti til að ná okkur út úr þeim þrengingum sem við erum í.

Um leið er eðlilegt að fólk fyllist reiði yfir fréttum af ofurlaunum. Reiðin er stutt æði og við eigum ekki að móta skattstefnuna á þeim grunni. Ég hvet formann viðskiptanefndar til að taka á launamálunum í bönkunum, til að taka á launamálunum í skilanefndunum. (LMós: Hvernig?) Með því að skerpa eigendastefnu ríkisins sem menn eiga að fara eftir í þeim bönkum sem við erum eignaraðilar að, með því að taka á í lögunum um skilanefndirnar og slitastjórnirnar (Gripið fram í.) og með ýmsum öðrum hætti. En við eigum ekki að hlaupa frá því augljósa verkefni og fara að skattleggja alls konar aðra hópa í samfélaginu af því að við getum ekki tekið á því vandamáli sem við blasir.

Um leið tek ég heils hugar undir það að verkefnið er einmitt ekki að leggja á nýja ofurskatta. Verkefni okkar er að draga úr þeim ofursköttum sem þegar eru og þar eru tekjutengingarnar á lágtekju- og meðaltekjufólk orðnar alvarlegt vandamál. Við þurfum að leita leiða til þess eftir því sem efnahagur okkar vænkast að draga aftur úr þeim og létta þeim (Forseti hringir.) ofursköttum af í stað þess að taka upp nýja.