139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir svörin hér áðan og undirtektirnar við mikilvægi þess að hv. fjárlaganefnd fari vel yfir stöðuna sem við ræddum hér áðan.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Þuríður Backman sagði hér um kynjaða fjárlagagerð og afleiðingar þess að fólki væri sagt upp í heilbrigðiskerfinu vegna þess að þar starfa að meiri hluta konur. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni, þetta blasir auðvitað við. Það sem hins vegar kristallast líka í svari hæstv. fjármálaráðherra í gær og ég hef gagnrýnt mjög mikið er að á sama tíma og við erum að reka konurnar út af sjúkrastofnununum erum við að setja nokkra tugi milljóna inn í Stjórnarráðið til þess að vinna að kynjaðri fjárlagagerð. Í þessu svari hæstv. fjármálaráðherra blasir við allt þetta sem ég hef haldið fram um þetta mál.

Síðan geta einhverjir furðað sig á því að maður kalli þetta innihaldslausa frasa því að þetta staðfestir það algjörlega, það eru settir tugir milljóna í Stjórnarráðið til að baksa þar í kringum kynjaða fjárlagagerð og á sama tíma eru konurnar sendar út af heilbrigðisstofnununum.

Það er best að rifja það líka upp að á fundi fjárlaganefndar í haust sögðu forstöðumenn sjúkrastofnana: Við erum búnir að taka allt okkar starfsfólk og strípa allt af því, konur sem eru með niður í 150 þús. kr. á mánuði sem vinna ekkert síður mikilvæg störf á stofnununum. Þetta voru þeir að gera en meiri hluti fjárlaganefndar lagði um leið til að sett yrði eitt stöðugildi inn í eitt ráðuneytið sem kostaði 11 milljónir. Á sama tíma er búið að strípa láglaunakonurnar allar, þær voru með niður í 150 þús. kr. á mánuði þannig að þetta er algjörlega talandi dæmi um það hvernig kynjuð fjárlagagerð á ekki að vera. Það á ekki að moka peningum inn í Stjórnarráðið til þess að reka konurnar út af sjúkrastofnununum. (Forseti hringir.) Það er ekki flóknara í mínum huga og hefur aldrei verið.