139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara síðari spurningunni þá er svar mitt að greinargerðin sem lögð hefur verið fram, nefndarálit og allt sem sagt hefur verið af hálfu þeirra sem um málið hafa fjallað er auðvitað lögskýringargagn í málinu og kemur til álita þegar menn fara að túlka lögin. En slík lögskýringargögn hafa ekki og geta aldrei haft sömu þýðingu og lagatextinn sjálfur. Það er það sem ég lagði áherslu á eða reyndi að benda á. Þegar fjallað er um framkvæmd kosninga eða rætt um formreglur eins og þær leikreglur sem farið er eftir fyrir dómstólum og kallast réttarfarsreglur eru þær mjög nákvæmlega útfærðar í lagatextanum sjálfum en byggja ekki á lögskýringargögnum eða reglum sem byggja á hefð. Þær byggja fyrst og fremst á þeim niðurneglda texta sem finna má í lögunum sjálfum. Það var áhersluatriði mitt í ræðu minni áðan, að tryggt væri að fyrirkomulag og meðferð þessara kærumála væri alveg útskýrt í lagatextanum sjálfum.

Mér þykir miður að við höfum ekki náð lendingu í málinu vegna þess að ég skynjaði það svo að allir nefndarmenn væru sammála um að framkvæmdin ætti að vera þannig að dómstólarnir ættu, og þá síðast Hæstiréttur, alltaf síðasta orðið um ágreining sem upp kæmi. Ég vona að það sé og verði þannig þegar einhverjir aðrir en nefndarmenn í allsherjarnefnd fara að túlka það frumvarp sem við fjöllum um hér og verður væntanlega samþykkt á eftir. Þetta er það atriði sem ég vildi (Forseti hringir.) koma á framfæri í ræðu minni.