139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[22:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má segja að stuttu svörin við báðum spurningunum séu jú. Ég get alveg tekið undir að æskilegt væri að lokafjárlögin kæmu fram sem fyrst eftir að ríkisreikningur liggur fyrir og hann hefur fengið sína venjulegu meðferð sem er gjarnan á miðju ári, ef ég hef lært rétt á undangengnum tveimur árum, þannig að lokafjárlög ættu þá að geta náð inn á haustþing árs næsta á eftir. Það væri að sjálfsögðu skemmtilegra að fjalla um þau á næsta almanaksári á eftir því sem við á. Það munaði nú ekki miklu að það tækist núna en ýmislegt varð til þess að það hafðist ekki fyrr en eftir að fjárlagaafgreiðslu haustþingsins var lokið. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að hugur okkar í fjármálaráðuneytinu stendur til þess að festa bæði vinnureglur og tímasetningu betur í sessi í þeim efnum. Vonandi verða hægari aðstæður til þess þegar mesta annríkið sem tengt er ástandi undangenginna tveggja eða þriggja ára er að baki.

Sama má segja um það frávik sem er frá ríkisreikningi, eða þess vegna fjáraukalögum og síðan ríkisreikningi og svo lokafjárlögunum. Það frávik ræðst að verulegu leyti af því hvernig farið er með flutning fjárheimilda eðli málsins samkvæmt. Þar hefur tvímælalaust náðst mikill árangur með því að hafa meiri festu og fastmótaðar reglur og eins með því að setja því skorður og þök hversu mikið er hægt að færa yfir af heimildum. Eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur eru hlutföllin að þróast í hagstæðari átt í þeim efnum eins og almennt má segja um frávikshlutföllin, þau hafa verið á (Forseti hringir.) niðurleið í þessari vinnu síðastliðin tvö ár.