139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

199. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn um fjármálaþjónustu.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og leitaði m.a. álits viðskiptanefndar á tillögunni og er álit nefndarinnar birt sem fylgiskjal.

Markmið ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar er að gera tiltekna reikningsskilastaðla þriðju ríkja sem tilgreind eru jafngilda alþjóðlegum reikningsskilastöðlum þar til innleiðing alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna hefur farið fram í viðkomandi þriðju ríkjum.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum að hluta til fjalla um það efni. Málið er að því leytinu tengt tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008 sem er 133. mál á yfirstandandi þingi og ég hef þegar gert grein fyrir.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.