139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

17. mál
[23:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst taka til máls til að fagna því að þetta mál sé komið þó svona vel á veg og þakka kærlega fyrir þær undirtektir sem þingmálið hefur fengið í utanríkismálanefnd.

Þetta mál er flutt að gefnu tilefni. Það er þannig að samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga hafa verið að breiðast nokkuð út um heiminn og ýmsar þjóðir hafa verið að gera svona samninga sín á milli, fyrst og fremst til þess að treysta möguleika á fjárfestingum milli landa. Það er athyglisvert í þessu sambandi að það ríki sem hefur kannski hvað mesta reynslu af samskiptum á alþjóðlega vísu, þ.e. Bretland, hefur beitt þessum samningum mjög mikið. Við Íslendingar höfum hins vegar verið nokkrir eftirbátar hvað þetta áhrærir og höfum lítið sinnt þeim þætti málsins. Fyrir því eru örugglega margs konar ástæður, sem þarflaust er svo sem að tína til en eru nefndar í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem við höfum til meðhöndlunar.

Það er rétt sem kemur fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar að aðstæður núna til að gera þessa samninga eru kannski ekki mjög heppilegir vegna þeirra gjaldeyrishafta sem við búum við en einhvern tímann lýkur þeim og vonandi verður það fyrr en síðar. Þess vegna er mikilvægt að nota einmitt tímann núna til að marka stefnuna í þessum efnum og undirbúa gerð samninga af þessum toga. Við höfum mjög litla reynslu á þessu sviði, höfum gert mjög fáa samninga og þá eingöngu samninga nánast undantekningarlaust við ríki sem við eigum lítil viðskiptaleg samskipti við. Nú væri auðvitað ráð til þess að snúa okkur að því að undirbúa samningagerð við ríki þar sem meiri fjárhagslegir hagsmunir eru undir. Þess vegna er eðlilegt að nota tímann núna til að undirbúa stefnumótun á þessu sviði svo við getum undið okkur að því þegar aðstæður verða þannig að við getum gert þessa samninga í einhverju trausti, að við séum þá búin að undirbúa jarðveginn í þessum efnum.

En fyrst og fremst langaði mig til að færa utanríkismálanefnd þakkir fyrir að hafa tekið þetta mál upp á sína arma og komið því inn í þingið þannig að það verði hér til afgreiðslu, væntanlega á morgun.