139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að ekkert verkefni í íslenskum stjórnmálum er eins brýnt nú um stundir og það að ná upp fjárfestingunni í atvinnuvegunum. Til þess held ég að mikilvægt sé að við þá samningagerð sem nú stendur yfir verði í meira mæli en við samningagerðina sem farið var í árið 2009 horft til þess að við í stjórnmálunum sköpum hin almennu skilyrði til uppbyggingar í atvinnulífi en einblínum ekki á einstakar fjárfestingar, látum atvinnulífinu sjálfu eftir að vinna úr því hvar best sé að fjárfesta. Til að skapa þær aðstæður er gríðarlega mikilvægt að eyða óvissu. Við þurfum að ljúka skuldahreinsun fyrirtækjanna og að því er stefnt að henni megi ljúka á vordögum. Við þurfum að eyða óvissu um afnám gjaldeyrishaftanna og í hvaða vegferð við erum þar og við þurfum að fá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl nk.

Ég er líka sannfærður um að við getum beitt skattkerfinu með virkum hætti með hvetjandi aðgerðum til að auka á fjárfestingu í nýsköpun (JónG: Ertu ekki að grínast? Ha?) og í nýjum störfum. Það höfum við líka verið að gera. Ég held að það að laða fram fjárfestingu í íslensku atvinnulífi sé einfaldlega svo stórt og mikilvægt verkefni fyrir okkur nú að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi eigi að vera tilbúnir til að ræða allt sem mögulegt er til að koma hjólum atvinnulífsins á þann skrið að við náum að vinna á atvinnuleysinu og skapa efnahagslegan vöxt og velsæld á ný.