139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vildi óska þess að það væri nóg að iðnaðarnefnd tæki þessar tvær þingsályktunartillögur og afgreiddi þær út, þar með gætum við smellt saman fingrum, olíuleit hæfist á Drekasvæðinu og við byrjuðum að nýta orkuna í Þingeyjarsýslu til atvinnuuppbyggingar. Svo er því miður ekki.

Hins vegar er það rétt að mikil vinna er í gangi eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt. Tökum fyrst olíuleitina á Drekasvæðinu. Leitarútboð verður auglýst í ágúst og tilboð um leit opnuð í desember. Í öðru lagi hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að tilboð voru síðast opnuð mikil samvinna átt sér stað með Norðmönnum þar sem verið er að samræma ýmislegt sem við þurfum að vinna að. Þeir hafa fengið upplýsingar frá okkur og við frá þeim þannig að það er í góðum farvegi.

Í þriðja lagi eru tvær lagabreytingar fram undan. Önnur er komin frá hæstv. iðnaðarráðherra til stjórnarflokkanna og verður vonandi lögð fram í dag eða á morgun. Hin er gagnvart skattumhverfinu og er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu og kemur líka vonandi innan skamms. Það má segja að allt sé á fljúgandi ferð hvað þetta varðar þrátt fyrir að við höfum ekki tekið þessa tillögu út úr iðnaðarnefnd. Við höfum rætt hana, við hana er víðtækur stuðningur og það getur vel verið að við setjum hana hér fram sem ályktun Alþingis. Tillagan er komin fram og hún hefur sannarlega ýtt við mönnum. Það er unnið á fullu á vegum hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta varðar.

Hvað varðar nýtingu á orkuauðlindum Þingeyjarsýslu þarf ég engu að bæta við það sem ég hef áður sagt. Það er komið umhverfismat á rúmum 500 megavöttum sem má beisla þarna. Þetta er vannýtt auðlind sem við þurfum að virkja og skapa peninga úr og ég hef sagt það, virðulegi forseti, og skal segja það einu sinni enn, það er allt undir í þeim efnum hvað varðar atvinnuuppbyggingu til að nýta þessa orku. (Forseti hringir.) Mér er alveg sama hvort það er álver, netþjónabú, gagnaver, tómataræktun (Forseti hringir.) eða eitthvað annað, það er allt undir. Aðalatriðið er að komast sem fyrst í þetta og sú vinna er í gangi á vegum (Forseti hringir.) Landsvirkjunar og ég bind vonir um að hún fari að bera árangur. (BJJ: Er ríkisstjórnarsamstarfið undir?)