139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að taka þátt í umræðunni um hagvöxt og atvinnusköpun. Rannsóknir sýna að ójöfnuður, sérstaklega í ráðstöfunartekjum, dregur úr hagvexti til lengri tíma. Á útrásartímabilinu jókst ójöfnuður og það var ekki fyrr en á milli áranna 2009 og 2010 sem ójöfnuður minnkaði hér aðeins, en við stöndum enn langt að baki nágrannaþjóðunum hvað varðar jöfnuð í ráðstöfunartekjum. (TÞH: Hvaða vitleysa er þetta?) Og ég get m.a. bent hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni á nýlega skýrslu sem Hagstofan gaf út um tekjudreifingu sem hann getur fundið á vef Hagstofunnar. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ástæða þess að það gengur mjög hægt að hleypa krafti í atvinnulífið hér á landi er of hraður niðurskurður á útgjöldum ríkisins og tregða kröfuhafa til að afskrifa skuldir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau fyrirtæki skapa flest störf í samfélaginu. Of hraður niðurskurður hefur dregið úr eftirspurn heimila og bankarnir eru núna að herða mjög svo endurheimtur á lánasöfnum sínum sem þeir sjálfir fengu með 40–55% afslætti.

Frú forseti. Ef ekkert verður gert til að tryggja að þessi afsláttur fari til lítilla og meðalstórra fyrirtækja munum við sjá atvinnuleysi hér á landi aukast enn frekar en nú er orðið.