139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

82. mál
[14:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að skýra afstöðu mína til þessarar atkvæðagreiðslu í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa orðið um það hvort maður eigi að vera við borðið eða ekki. Ég vil minna á að fyrir nokkrum árum lögðum við í þáverandi utanríkismálanefnd í mikla vinnu til að finna betra verklag einmitt til þess að hafa áhrif á EES-gerðir á mótunarstigi. Ég tel að við höfum ekki sem löggjafarvald nýtt öll þau tækifæri sem við höfum, Íslendingar, til að hafa áhrif á EES-gerðir og það hefur ekkert með það að gera hvort við erum við ESB-borðið eða ekki. Ég held, og hef lagt það til áður úr þessum ræðustól, að við ættum að nýta þau tæki og þá möguleika sem við nú höfum áður en við förum að setjast við fleiri borð.