139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um menntun og atvinnusköpun ungs fólks. Tillagan er flutt af 16 þingmönnum úr öllum þingflokkum og vil ég byrja á því að þakka meðflutningsmönnum mínum fyrir stuðninginn við þetta mál.

Kveikjan að tillögunni er alvarleg þversögn í atvinnu- og menntamálum okkar. Komið hefur fram að margar af helstu vaxtargreinum í atvinnulífi okkar, þar á meðal þær greinar sem hafa gengið undir samheitinu hugverkaiðnaðurinn og hafa að geyma fyrirtæki eins og Össur og Marel, leikjaiðnaðinn eins og hann leggur sig, matvælafyrirtæki, fyrirtæki í orku- og umhverfistækni o.s.frv., hafa látið þau boð út ganga að þessi fyrirtæki séu vel í stakk búin til að bæta við sig starfsfólki á komandi mánuðum og missirum, hafa talað um fjölgun starfsfólks um 10% á þessu ári og næstu tveimur hið minnsta.

Forsendan fyrir því að þessi fyrirtæki geti tekið út þennan vöxt hér á landi er að þau hafi aðgang að starfsfólki með tiltekna menntun og þar er iðn- og tæknimenntun efst á blaði. Vandamálið er hins vegar það að menntakerfið hefur ekki haft undan að mennta fólk á þessu sviði og reyndar höfum við sérstaklega þurft að skera niður í þessum hópi í niðurskurðinum sem hefur komið illa við flest svið samfélagsins. Ég harma það mjög.

Tillagan gengur út á það að bregðast við þeirri stöðu með því að forsætisráðherra verði falið að móta aðgerðaáætlun sem hafi þann þríþætta tilgang að efla og styrkja stöðu starfsnáms í samfélaginu, vinna bug á langtímaatvinnuleysi ungs fólks og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með menntun af þessu tagi.

Það er sláandi að þegar horft er á tölur um atvinnuleysi hjá fólki á aldrinum 16–24 ára birtist okkur strax sú staðreynd að 74–76% atvinnuleitenda á aldrinum 16–24 ára eru einungis með grunnskólapróf. Það er borðleggjandi að leiðin til að koma þeim hópi af atvinnuleysisskrá og inn á vinnumarkaðinn er í gegnum aukna menntun. Það er því lykilstef tillögunnar að leitað verði allra leiða til að tryggja að allir þeir sem vilja taka þetta skref, svara þessu ákalli um að bæta við sig menntun, hafi kost á því.

Það eitt er risastórt verkefni því að á undanförnum árum hafa framhaldsskólarnir í landinu þurft að vísa frá mörg hundruð nemendum, á sjöunda hundrað nemendum á árinu 2009 og á fimmta hundrað nemendum síðasta haust. Það er því verulegt átak að búa svo um hnútana að allir þeir sem vilja komast í framhaldsskólanám næsta haust eigi þess kost. Það mun kalla á mjög samhent átak stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og annarra sem þurfa að koma að þessum málum.

Það ber að þakka að stjórnvöld hafa gripið til ýmiss konar úrræða til að auka virkni atvinnuleitenda á liðnum árum og þeir skipta þúsundum sem hafa nýtt sér þau úrræði. Þar vil ég sérstaklega geta átaksins Ungt fólk til athafna sem hefur skilað prýðilegum árangri en þar er meginmarkmið að virkja unga atvinnuleitendur innan þriggja mánaða frá atvinnumissi til að koma í veg fyrir þær alvarlegu félagslegu afleiðingar sem fylgja atvinnuleysi.

Þessi tillaga gengur út á það að aðilar stilli saman strengi, stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, skólar, fulltrúar Landssambands æskulýðsfélaga og Vinnumálastofnun, og leiti leiða til að tryggja að ungt atvinnulaust fólk komist í nám, sérstaklega í starfsnám. Þar erum við komin að öðrum meginþætti þessarar tillögu, sem er að auka vægi iðn- og tæknimenntunar, auka vægi starfsnáms í skólakerfi okkar. Þar mæta okkur hins vegar mjög sérkennilegar staðreyndir sem benda til þess að við séum á þveröfugri leið miðað við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.

Ekki er óalgengt í löndunum í kringum okkur að við sjáum þær tölur að hlutfall framhaldsskólanema sem leggur stund á starfsnám sé vel yfir 70%. Við sjáum tölur allt upp í 80% þar sem best lætur í löndum eins og Þýskalandi og Austurríki, en þegar við skoðum myndina á Íslandi er hún þveröfug. Hér fer allur þorri framhaldsskólanema í bóknám, um 66% á árinu 2009 sem eru þær tölur sem við höfum nýjastar handbærar, en hins vegar leggja innan við 35% stund á starfsnám. Þarna er komin sú þversögn sem er kveikja þessarar tillögu, að menntakerfið og vinnumarkaðurinn tala ekki nægilega vel saman. Lykillinn að því að ná okkur út úr þeim vanda sem við erum í á vinnumarkaði er kannski sá að tengja betur saman menntastefnu og atvinnustefnu og segja má að það sé rauði þráðurinn í þeirri tillögu sem hér liggur til grundvallar.

Það er líka sláandi þegar kemur að starfsnáminu að greinilega ríkja miklir fordómar í kerfinu gagnvart starfsnáminu, mjög margir sem á endanum velja þessa braut byrja á því að verja drjúgum hluta af námsferlinum í bóknám en hrökklast úr námi með tilheyrandi brottfalli; tímaeyðslu, sóun á fjármunum og tíma bæði fyrir viðkomandi nemendur og samfélagið allt. Við sjáum þetta á þeirri tölfræði sem birtist okkur þegar við skoðum yfirlit yfir sveinspróf sem gefin hafa verið út á liðnum árum, þar er hlutfall þeirra sem ljúka sveinsprófi og eru komnir yfir 25 ára aldur 56% þannig að góður meiri hluti þeirra sem útskrifast með sveinspróf er 25 ára og eldri, allt önnur mynd en blasir við okkur þegar við skoðum bóknámshliðina.

Það er rétt að hnykkja á því að þessi tillaga hefur þann þríþætta tilgang að styrkja stöðu starfsnáms í samfélaginu til að svara kalli vaxtargreina í atvinnulífinu eftir nýju vinnuafli og sérstaklega að því að stilla saman strengi til að ná niður atvinnuleysi hjá ungum atvinnuleitendum. Þessi tillaga gerir ráð fyrir víðtæku samráði stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, skóla, Landssambands æskulýðsfélaga og Vinnumálastofnunar, við að setja niður starfshóp sem ynni þessa aðgerðaáætlun. Og ég get upplýst að þegar hafa átt sér stað óformlegar viðræður milli þessara aðila sem skiluðu sér m.a. í því að þessi tillaga var sett fram. Vænti ég mikils af samstarfi þessara aðila í framhaldinu.

Ég læt lokið framsögu um þessa tillögu en legg að lokum til að henni verði vísað til hv. menntamálanefndar.