139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

155. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og sú tilskipun sem hér um ræðir kveður á um sértækar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með grunnvatnsmengun. Í annarri tilskipun, hinni svonefndu vatnatilskipun, nr. 60/2000, er í 17. gr. vísað til slíkra aðgerða. Þessar ráðstafanir fela meðal annars í sér að setja viðmiðanir til að meta gæði grunnvatns með tilliti til efnainnihalds og viðmiðanir til að auðkenna og snúa við meiri háttar og varanlegum breytingum til hnignunar á gæðum grunnvatns og setja mörk fyrir upphafspunkt þeirrar hnignunar. Einnig eru settir fram gæðastaðlar fyrir grunnvatn.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra til nýrra heildarlaga um stjórn vatnamála, sem er 298. mál á þskj. 344, um þetta efni. Það frumvarp er nú til meðferðar í hv. umhverfisnefnd.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að æskilegt væri að veita jafnhliða heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 126/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 915/2008 er varðar flokkun á eftirlitskerfum. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, var veittur til 10. maí 2011. Utanríkismálanefnd gerir því breytingartillögu þar að lútandi að hún leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Tillögugreinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009, frá 3. júlí 2009, og nr. 126/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu, og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/915/EB um að ákvarða gildi fyrir flokkun í vöktunarkerfi aðildarríkjanna á grundvelli niðurstaðna úr millikvörðun samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB.“

2. Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009 og nr. 126/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls en undir nefndarálitið og breytingartillögurnar rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.