139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi síðustu ummæla hv. þm. Þórs Saaris ætla ég ekkert að deila um það við hann hver hans upplifun af kosningunni var eða aðdraganda kosningarinnar. Það vekur hins vegar athygli mína að það var ekki nema þriðjungur kjósenda sem sá ástæðu til að kjósa í þessu kjöri. Það gefur til kynna, svo að ég fullyrði nú ekki meira, að 2/3 kjósenda hafi ekki upplifað þetta á sama hátt og hv. þingmaður. En um það má auðvitað deila.

Ég ætlaði fyrst og fremst, hæstv. forseti, að koma með athugasemd sem varðaði breytingartillöguna sem hv. þingmaður hefur lagt fram um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður ráðgefandi stjórnlagaráðs. Ég hef áður látið í ljósi efasemdir um það. Ég tek undir það með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég skil alveg hugsunina hjá hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hans. En einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hreinlegra hefði verið, og hugsanlega eitthvað sem við hefðum getað sest niður við að gera fyrir tveimur árum, eftir kosningarnar 2009, að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar aðferðina við að breyta stjórnarskránni. Ef sú breyting hefði verið gerð í upphafi kjörtímabilsins 2009 hefðum við hugsanlega komist fram hjá mörgum furðulegum krúsídúllum, svo að ég leyfi mér að orða það svo, sem verið hafa á vegferðinni síðan.

Ég ítreka að ég hef ákveðnar efasemdir um þetta form á þessu. Jafnvel þó að breytingartillagan nái fram að ganga þurfa þá ekki að koma fram sérstök þingmál síðar (Forseti hringir.) til að mæla fyrir um þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu miðað við lögin sem gilda um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur? Mig langar að spyrja hv. þingmann um það.