139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem ég stend að er tekið undir þau sjónarmið sem tillaga Þórs Saaris o.fl. byggir á og lýst stuðningi við einróma álit allsherjarnefndar frá í fyrrasumar um nauðsyn ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu að nýrri stjórnarskrá. Með þessari tillögu sem við nú erum að afgreiða um stjórnlagaráð er stjórnlagaráði falið að gera tillögu til Alþingis um hvort og þá hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram. Það tel ég réttan framgangsmáta og enga ástæðu til að ætla annað en að Alþingi muni fara að slíkri tillögu frá stjórnlagaráði. Ég tel þessa tillögu því óþarfa, en með því að ég er flutningsmaður að þingsályktunartillögunni og styð breytingartillögu frá hv. þm. Róberti Marshall mun ég ólíkt félögum mínum öðrum í þingflokknum sitja hjá við atkvæðagreiðslu þessa.