139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að við skulum nú geta haldið áfram vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar með þessu móti í stað þess að stöðva það ferli sem komið var af stað. Ég treysti þeim einstaklingum sem buðu sig fram eftir auglýsingu og ákvörðun Alþingis til setu á stjórnlagaþingi síðasta haust, og nutu stuðnings í kosningu til stjórnlagaþings sem síðar var ógilt, til að leggja fyrir þing og fyrir þjóð frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ég vil hvetja þann góða hóp til að láta ekki á sig fá það hefðbundna hnútukast sem hér hefur farið á milli pólitískra fylkinga heldur ganga óhikað fram til þessa mikilvæga verks sem þeim er nú falið.